Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, boðar til fundar í Sykursalnum í Grósku á morgun.
Diljá hefur legið undir feldi undanfarið og brætt það með sér hvort hún hyggist bjóða sig fram til varaformanns flokksins á landsfundi hans um næstu helgi.
Hún hefur verið þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður síðan 2021 og var 4. varaforseti Alþingis á árunum 2021 til 2023.
Í tilkynningu sinni á samfélagsmiðlum segir Diljá Mist að eftir marga fundi víða um land, skemmtilegar umræður og frábær kynni við fjölbreyttan hóp vilji hún hitta fólkið og hita upp fyrir landsfund.
Búast má við því að á fundinum tilkynni Diljá um framboð sitt til varaformanns flokksins.
Jens Garðar Helgason, þingmaður og oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi, tilkynnti um framboð sitt til varaformanns á sunnudag og var sá fyrsti til þess. Jón Gunnarsson, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, hefur einnig verið orðaður við framboð til varaformanns ásamt Diljá.
Þegar hafa þingmennirnir og ráðherrarnir fyrrverandi, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir, tilkynnt um framboð sitt til formanns flokksins.