Fundur samninganefnda kennara, ríkis og sveitarfélaga stendur enn í Karphúsinu og mun að öllum líkindum standa fram eftir kvöldi.
Þetta upplýsir Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari boðaði samninganefndirnar á fundinn klukkan 15 í dag.
Að sögn Magnúsar eru viðræðurnar „á viðkvæmu stigi“ en gat hann ekki gefið upp nánari upplýsingar að svo stöddu.
Greint var frá fyrr í dag að afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga til innanhústillögu ríkissáttasemjara hafi ekki breyst og að samninganefndin myndi ganga til fundarins í dag með það að uppsagnarákvæði standi enn í vegi fyrir því að hægt sé að ljúka gerð kjarasamnings við kennara.
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS), útilokaði þó ekki að gengið yrði að einhvers konar forsenduákvæði í kjarasamningnum.
„Það hafa verið samtöl um helgina en það er svosem ekkert nýtt í þessu. Ég vona að við getum hist í dag og farið að reyna að greiða úr þessu. Það er ekki langt í land. Það þarf bara að klára þetta núna. Það er ekkert annað í boði,“ sagði Inga í samtali við mbl.is fyrr í dag.