Hæstiréttur hefur samþykkt að taka beint fyrir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem snýr að ógildingu leyfisveitingar Orkustofnunar til handa Landsvirkjun til að reisa Hvammsvirkjun í Þjórsá.
Telur Hæstiréttur að líta verði svo á að dómur í málinu geti haft almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna auk þess sem úrslit þess kunni að hafa verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Einnig liggi ekki fyrir í málinu aðstæður sem kunni að geta komið í veg fyrir að leyfi til áfrýjunar beint til Hæstaréttar verði veitt. Er beiðnin því samþykkt og fer málið því beint frá héraði til Hæstaréttar án þess að Landsréttur taki það fyrir.
Ákvörðun Hæstaréttar var birt á vefsíðu dómstólsins í dag, en ákvörðunin var þó tekin á föstudaginn.
Um miðjan janúar komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að ógilda skyldi leyfisveitinguna þar sem Umhverfisstofnun hafi skort lagastoð til að heimila breytingu á vatnshloti og því geti virkjunarleyfið ekki staðið. Var heimild Umhverfisstofnunar til þess að breyta vatnshlotinu Þjórsá 1 ógild.
Miklar umræður spruttu upp eftir dóm héraðsdóms og sagði Landsvirkjun að dómurinn benti til þess að beitt hafi verið gullhúðun við innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins og þar með hafi löggjafinn gert Umhverfisstofnun ókleift að veita heimild til breytingar á vatnshloti fyrir bygginga vatnsaflsvirkjana. Þar með sé ekki hægt að gefa út virkjunarleyfi.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/01/15/allar_nyjar_vatnsaflsvirkjanir_i_uppnami/
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sagði í kjölfarið að þetta gæti leitt til nokkurra ára seinkunar á gangsetningu Hvammsvirkjunar og að það væri óþolanleg niðurstaða. Boðaði hann í kjölfarið frumvörp um virkjunina og hefur það nú verið afgreitt úr ríkisstjórn og var lagt fyrir þingið fyrr í þessum mánuði.
Þegar Landsvirkjun ákvað að óska beint eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar kom fram að fyrirtækið teldi dóminn í meginatriðum rangan og að ekki væri hægt að túlka vilja löggjafans á þann hátt sem héraðsdómur gerði.
Fleiri hafa tjáð sig um dóminn, meðal annars Hafsteinn Dan Kristjánsson, prófessor við Háskólann í Reykjavík. Sagðist hann draga í efa að vilji löggjafans hafi verið með þeim hætti sem fram kemur í dóminum.