Eftir talsverða leit hefur fundist nýtt húsnæði fyrir Konukot. Flytur það í Ármúla 34 ef áformin ganga eftir. Núverandi húsnæði við Eskihlíð stenst ekki lengur kröfur.
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Reykjavíkur 11. febrúar síðastliðinn var sótt um leyfi til að innrétta Konukot fyrir 12 skjólstæðinga á 2. hæð og tímabundið búsetuúrræði fyrir sex skjólstæðinga á 3. hæð í húsi á lóð nr. 34 við Ármúla.
Á fundi skipulagsfulltrúa var samþykkt að grenndarkynna framlagða byggingarleyfisumsókn fyrir hagsmunaaðilum að Ármúla 32, 36 og Síðumúla 19.
Bent er á að leigutakar húsnæðis á lóðunum teljast einnig til hagsmunaaðila og skulu húseigendur kynna tillöguna fyrir þeim.
Kynning hefst í skipulagsgáttinni í dag, 25. febrúar 2025, og er athugasemdafrestur til 25. mars.
Fram kemur í kynningargögnum að húsið Ármúli 34 var upphaflega hannað árið 1959. Húsið er þrjár hæðir án kjallara. Á 1. hæðinni er atvinnustarfsemi en á 2. og 3. hæð var á árum áður dagvistun ellilífeyrisþega. Árið 2021 var heimilað að breyta þessum hæðum í gististað án veitinga.
Á 2. hæð er áformað að verði starfsemi Konukots, úrræðis fyrir heimilislausar konur. Neyðarskýlið verði opið frá kl. 17.00 til kl. 10.00 næsta dag.
Fjöldi kvenna sem sækja úrræðið verði að jafnaði um átta en getur þegar mest er verið allt að 12. Tveir starfsmenn verði á staðnum og vakt allan sólarhringinn.