Móðir hefur verið sýknuð í Héraðsdómi Norðurlands eystra af ákæru um sérstaklega hættulega líkamsárás og brot í nánu sambandi gagnvart syni sínum.
Hafði konan fengið konu frá Ítalíu til að koma til landsins til að umskera soninn, en vegna blæðinga var sonurinn fluttur á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri samdægurs. Meðal annars er vísað til hefðar og trúar fjölskyldunnar og að aðgerðin hafi verið í góðri trú.
Konan, sem er af erlendu bergi brotin, hafði áður látið umskera eldri son sinn á Spáni. Þegar hún var ófrísk af yngri syninum og var á Akureyri hafi hún hins vegar ekki verið með gilt vegabréf og því ekki getað farið erlendis í þessu skyni. Hafði hún fengið þær upplýsingar að ekki væri hægt að láta umskera drengi á sjúkrahúsum hér á landi.
Vinkona hennar hafi bent henni á aðra konu sem ræki stöð til að sinna umskurðaraðgerðum. Hafði móðirin samband við þessa konu eftir fæðingu sonarins og úr varð að hún kom til Akureyrar daginn fyrir aðgerðina og gisti eina nótt á heimili fjölskyldunnar.
Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði konan að aðgerðin hefði farið fram í stofunni heima hjá sér, hún hafi gefið syni sínum endaþarmsstíl fyrir aðgerðina en ekki önnur lyf og ekki vitað hvort konan hafi gefið honum einhver lyf.
Sjálf vildi móðirin ekki horfa á aðgerðina, en séð soninn á gólfinu og hann hafi verið vakandi og grátið allan tímann. Aðgerðin hafi í það heila tekið um tíu mínútur, en eftir hana hafi konan sett bómull og sárabindi á lim sonarins, auk þess að bera krem á svæðið.
Sagðist móðirin hafa greitt konunni 300 evrur fyrir verkið og 20 þúsund krónur í ferðakostnað.
Meðal gagna í málinu var nafnspjald frá konunni á Ítalíu, en þar voru uppgefin þrjú erlend símanúmer. Gat lögreglan séð að eitt þessara númera hafði verið notað hér á landi. Þrátt fyrir beiðni lögreglu um upplýsingar um konuna frá lögreglu á Ítalíu og ítrekanir þar um, bárust engin svör.
Móðirin sagði lögreglu að hún hafi fyrir aðgerðina komist að því hjá ljósmóður að aðgerðir sem þessar væru ekki framkvæmdar á Íslandi. Lét hún leikskólann vita að drengurinn myndi ekki mæta í leikskóla dagana á eftir vegna aðgerðarinnar, en leikskólinn lét í kjölfarið félagsráðgjafa vita sem fór með drenginn á sjúkrahúsið eftir að vart varð um blæðingarnar.
Á sjúkrahúsinu fór drengurinn sem fyrr segir í aðgerð og þurfti meðal annars að draga saman sár á limi hans með þráðum í svæfingu. Brennt var fyrir blæðingar og sárið hreinsað og saumur af óþekktri gerð fjarlægður. Þá var hluti forhúðar saumaður.
Faðir drengsins var erlendis þegar málið kom upp og sagðist ekki hafa vitað af því. Hann greindi þó frá því að samkvæmt trú fjölskyldunnar þyrfti að umskera drengi fyrir tíu ára aldur því annars myndu þeir deyja. Eldri sonurinn hafi verið umskorinn á Spáni þar sem enginn framkvæmdi aðgerðina hér á landi.
Konan sagði fyrir dómi að hún hafi látið umskera son sinn í góðri trú til að hann gæti lifað góðu lífi. Þá kvaðst hún vera kristin. Það væri hefð hjá þeirra fólki að umskera drengi og hún hafi ekki vitað að það væri brot á íslenskum lögum. Hafi hún látið umskera son sinn vegna hefðar og trúar.
Læknir sem bar vitni í málinu sagði að um bláæðablæðingu hafi verið að ræða og að hún hafi ekki verið lífshættuleg í þessu tilviki. Sagði hann erfitt að segja til um hvað gæti hafa gerst ef drengurinn hefði ekki farið á sjúkrahús, en að helst hefði getað orðið örmyndun við sárið og í versta falli drep í kringum það. Taldi hann aðgerðina hafa verið töluvert inngrip í líf drengsins. Annar læknir gaf svipaða skýrslu og sagði að líklegast hefði blæðingin að lokum stöðvast án inngripa.
Í niðurstöðu dómsins kemur fram að móðirin hafi talið konuna sem kom frá Ítalíu vera sérfræðing á þessu sviði. Þá sé ekkert í málinu sem varpi ljósi á að móðirin hafi gefið konunni fyrirmæli um framkvæmd umskurðarins. Er þessi staðreynd lögð til grundvallar við úrlausn málsins.
Fram kemur að konan hafi kynnt sig sem sérfræðing og þá hafi staðið á nafnspjaldinu að hún væri hjúkrunarfræðingur.
Telur dómurinn ekki nægjanlega sönnun komna fram í málinu, svo hafið verið yfir yfir skynsamlegan vafa, að konan sem framkvæmdi umskurðinn hafi verið óhæf til þess og að móðurinni hafi átt að vera það ljóst.
Tekið er fram að alkynna sé að umskurður ungra drengja sé algengur víða um heim og svo hefur verið um langan aldur. Slík aðgerð sé einnig stundum framkvæmd af læknisfræðilegum ástæðum, en mjög oft af trúarlegum sjónarmiðum eða öðrum samfélagshefðum.
Vísar dómurinn til þess að umskurður drengja sé ekki bannaður hér á landi, andstætt líkamsárás gagnvart kynfærum stúlkna og kvenna, sem áður gekk undir heitinu umskurður kvenna.
Bendir dómurinn á að konan hafi greinilega talið í lagi að láta umskera drengi hér á landi þótt það væri ekki gert á sjúkrahúsum. Þannig sýndu samskipti hennar við leikskólann, þar sem hún upplýsti að drengurinn væri á leið í aðgerðina, að hún taldi slíka aðgerð í góðu lagi.
Telur dómurinn miðað við allt framangreint að háttsemi konunnar hafi ekki samrýmst verknaðarlýsingu í ákærunni um að það hafi verið hættuleg líkamsárás að fá konuna frá Ítalíu til að framkvæma umskurðinn. Vísað er til orða lækna sem sögðu að drengurinn hafi ekki verið í lífshættu og þar með hafi ákvörðun móðurinnar að fá konuna til að framkvæma umskurð ekki talist ógna lífi og velferð drengsins.
Þannig telur dómurinn varhugavert að telja að komin sé fram sönnun um að móðirin hafi með ásetningi eða gáleysi komið því til leiðar að með hættulegri líkamsárás hafi drengurinn verið umskorinn.
Er konan því sýkn af ákæru og greiðist allur sakarkostnaður, samtals um 3,5 milljónir úr ríkissjóði.