Afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga til innanhústillögu ríkissáttasemjara hefur ekkert breyst og gengur samninganefndin með það til fundarins í Karphúsinu í dag að uppsagnarákvæði standi enn í vegi fyrir því að hægt sé að ljúka gerð kjarasamnings við kennara.
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS), útilokar þó ekki að gengið verði að einhvers konar forsenduákvæði í kjarasamningi við kennara.
„Það hafa verið samtöl um helgina en það er svosem ekkert nýtt í þessu. Ég vona að við getum hist í dag og farið að reyna að greiða úr þessu. Það er ekki langt í land. Það þarf bara að klára þetta núna. Það er ekkert annað í boði,“ segir Inga í samtali við mbl.is.
Fundur samninganefnda kennara, ríkis og sveitafélaga hefst klukkan 15 í dag í Karphúsinu.
Eins og fram hefur komið lagði ríkissáttasemjari fram innanhústillögu í deilunni á fimmtudag, sem kennarar samþykktu, en sveitarfélögin höfnuðu henni á þeim forsendum að hún fæli í sér hærri innborgun á virðismat en sú tillaga sem áður hafði verið samþykkt.
Tillagan fól í sér 24,5 prósent launahækkanir, en inni í þeirri tölu eru almennar launahækkanir upp á 14 til 15 prósent sem aðrir hafa fengið.
Þá gátu sveitarfélögin ekki fallist á forsenduákvæði í samningnum sem gera kennurum kleift að segja honum upp á tímabilinu.
Það er aðallega forsenduákvæðið sem stendur í ykkur núna, eða hvað?
„Auðvitað er það þannig, og líka tengsl við mjög háa innáborgun inn á þessa virðismatsleið. Við viljum bara að þau bönd séu traust og að menn geti ekki sagt þessu upp á miðri leið. Við viljum að þau haldi út samningstímann og vinni vel að þessu verkefni með okkur. Það er mjög mikilvægt fyrir kennara og til að geta bætt stöðu kennara. Þá þurfum við þennan tíma til að vinna þetta verkefni,“ segir Inga.
Þannig það kemur enn ekki til greina að samþykkja forsenduákvæði sem felur í sér mögulega uppsögn á samningstímanum?
„Það er það sem hefur staðið í okkur, en auðvitað þurfum við að leysa þetta og finna einhvern stað til að mætast á þar.“
Það er þá ekki útilokað að gangist að einhvers konar forsenduákvæði?
„Við verðum bara að sjá til. Við viljum helst tryggja að þessi virðismatsvegferð fái það tækifæri sem hún á skilið. Og að menn taki alla vinnuna með okkur.“
Greint var frá því á fimmtudag, þegar Ástráður lagði fram innanhústillöguna, að hún væri lögð fram með samþykki allra aðila. Stjórn SÍS hefur hins vegar sagt að framsetning tillögunnar hafi ekki verið með samþykki stjórnar eða samninganefndar.
Inga segir tillögunni tvisvar hafa verið hafnað í stjórn sambandsins, en hún hafi engu að síður gefið grænt ljós á að hún yrði lögð fram, vegna þrýstings.
„Það var búið að hafna þessari tillögu tvisvar í stjórn sambandsins, þannig að sjálfsögðu fór ég með þau skilaboð í Karphúsið. Það var mikil pressa þar að þetta yrði lagt fram. Þannig ég samþykkti það, en með þeim orðum að þau vissu það öll og formaður KÍ þar með talinn, að þetta yrði ekki samþykkt. Við gerðum öllum grein fyrir því.“
Kennarar samþykktu tillöguna nokkuð fljótt en ríki og sveitarfélög fengu frest til klukkan tíu um kvöldið til að taka afstöðu. Þegar sá frestur var að renna út var óskað eftir fresti til hádegis daginn eftir, sem fallist var á.
Ástæðan var sú að ná þurfti í stærra bakland til að koma að ákvarðanatökunni.
„Þetta var stór ákvörðun að hafna þessu, þá vildum við eiga fund með öllum framkvæmdastjórum sveitarfélaganna og við áttum stóran fund með þeim um morguninn. Þannig allir væru saman í þessu. Það var mikill einhugur í öllum hópnum, fyrir utan formanninn sem var á annarri skoðun,“ segir Inga.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar SÍS og nýr borgarstjóri, hefur gert grein fyrir þeirri afstöðu sinni. Hún hefur einnig sagt að hún útiloki ekki að Reykjavík semji við kennara, án aðkomu SÍS.
Spurð hvort Heiða hafi haft einhver áhrif á það að tillagan var lögð fram, segir Inga:
„Nei, hún er ekki í Karphúsinu. Það eru við sem erum þar, við auðvitað höldum uppi hagsmunum sveitarfélaganna og okkar baklands. Við erum í mjög þéttu samráði og samtali við okkar bakland og vissum nákvæmlega hvernig þeirra hugur stóð.“
Heiða sagði sjálf í Silfrinu í gær að hún hefði ekki komið nálægt því þegar Ástráður lagði fram tillöguna.
Aðspurð segir Inga afstöðu stjórnar SÍS til tillögunnar óbreytta.
Þannig þið gangið til fundarins í dag með þessa sömu skoðun á innanhústillögunni?
„Já, en eins og ég segi þá erum við orðin býsna ánægð með þennan samning. Það er bara þessi lokahnykkur sem við þurfum að ná saman og vonandi getum við átt samtöl um það í dag.“