Þrír ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna í gærkvöld og í nótt og þá reyndist einn þeirra ekki með ökuréttindi og er einnig grunaður um vörslu fíkniefna.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun. Alls eru 98 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu og gista átta í fangaklefa.
Tilkynnt var um þrjá aðila að stela í verslun í miðborginni og var málið afgreitt á staðnum. Þá barst lögreglunni tilkynning um aðila að grýta eggjum í hús. Lögreglan fór á vettvang en hafði ekki uppi á eggjakösturunum.
Lögreglan á lögreglustöð 2, sem sinnir Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi, aðstoðaði ferðamann að komast á Keflavíkurflugvöll að hans ósk.
Tilkynnt um ungmenni sprengja flugelda, lögregla fór á vettvang og þar var engan að sjá.