Veðurstofan varar landsmenn við eldingaveðri

Varað er við eldingum í kvöld og nótt.
Varað er við eldingum í kvöld og nótt.

Veðurstofan varar landsmenn við hugsanlegu eldingaveðri í kvöld og nótt.

Éljagangi er spáð um sunnan- og vestanvert landið og með éljaloftinu fylgir möguleiki á eldingum.

Éljagangur síðdegis

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að lægð á Grænlandshafi og önnur við Jan Mayen stjórni veðurfari Íslendinga í dag.

Áttin verður suðvestlæg eða breytileg, 5-13 m/s, og fylgir dálítil snjókoma.

Hiti verður um eða undir frostmarki. Síðdegis má búast við éljagangi sunnan og vestan til á landinu en þá birtir um landið norðaustanvert.

Á morgun verður suðvestan og vestan gola, eða kaldi. Víða él en úrkomuminna norðvestan til. Frost verður á bilinu 0 til 7 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert