Fulltrúar erlendra skipafélaga sem reka stóran hluta þeirra skemmtiferðaskipa sem koma til Íslands funduðu í gær með sveitarstjórnarmönnum af landsbyggðinni um innviðagjald sem tekið var upp um áramótin.
Um er að ræða skipafélögin Royal Caribbean, Norwegian Cruise Lines, MSC Cruises og Carnival en auk þeirra voru fulltrúar frá íslensku samtökunum Cruise Iceland og Cruise Lines International Association (CLIA) sem boðaði fundinn.
Þann 1. janúar tóku gildi ýmsar breytingar vegna innflutnings og gjaldtöku vegna farþega og ferðamanna í skemmtiferðaskipum landsins. Þar á meðal er nýtt innviðagjald þar sem lagt er gjald á hvern farþega um borð í skemmtiferðaskipi í millilandasiglingum á meðan skipið dvelur í höfn hér á landi eða annars staðar á tollsvæði ríkisins. Gjaldið nemur 2.500 krónum fyrir hvern farþega fyrir hvern byrjaðan sólarhring sem skipið dvelur á tollsvæði ríkisins.
Sigurður Jökull Ólafsson, starfandi formaður Cruise Iceland, segir að fækkun verði á skipakomum í ár vegna gjaldsins og fyrirséð að það verði næstu ár. Eru fulltrúar skipafélaganna ekki mótfallnir gjaldinu sjálfu heldur að því hafi verið komið á fyrirvaralaust en lögin um breytingarnar voru samþykkt 18. nóvember, rúmum mánuði áður en þær voru teknar upp.
Þá kalla fulltrúar skipafélaganna eftir að gjaldinu verði frestað og því svo komið á í þrepum á næstu árum og með fyrirvara.
Sigurður segir fundinn í gær hafa verið með bæjarstjórum og hafnarstjórum Grundarfjarðar, Múlaþings, Akureyrar, Ísafjarðar og Vestmannaeyja og segir hann mikinn samhljóm vera á milli bæjarfélaganna um að innviðagjaldið skuli endurskoðað og gert í sátt.
Þá stendur til að hitta fulltrúa frá borgarstjórn í dag auk þingmanna og eiga svo fulltrúar skipafélaganna fund með Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra á morgun.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag