Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, hlaut rétt í þessu Viðurkenningu Hagþenkis 2024 fyrir bók sína Strá fyrir straumi – ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809-1871 en afhendingin fór fram í Þjóðarbókhlöðunni.
„Að fá viðurkenningu fyrir fræðirit sem tók mörg ár í vinnslu og ég lagði líf og sál í hefur mikla þýðingu fyrir mig,“ segir Erla Hulda innt eftir viðbrögðum.
„Sérstaklega af því að verkið er um óþekkta konu. Þetta er kvennasaga, saga konu sem var uppi á fyrri hluta 19. aldar og var ekki þekkt fyrir störf sín, kvenréttindi eða eitthvað slíkt. Hún var því ekki með það sem stundum hefur verið kallað „verðugleiki“ í sögunni eins og fólk sem fær skrifaðar um sig bækur af því að það hefur gert eitthvað „merkilegt“. Hún fellur því ekki undir það.“
Alls voru tíu rit tilnefnd en Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings og er það viðurkenningaráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum, sem stendur að valinu.
Viðurkenningin felst í sérstöku viðurkenningarskjali en að auki fær vinningshafinn 1.500.000 kr. í verðlaunafé.
Í umsögn dómnefndarinnar segir að um sé að ræða viðamikið verk um heila ævi konu, að stórum hluta með orðum hennar sjálfrar, í krafti þeirra fjölmörgu bréfa sem hún skrifar til Páls bróður síns á yfir 50 ára tímabili.
„Slíkar heimildir um líf kvenna er ekki víða að finna þegar um 19. öldina er að ræða enda var staður kvenna fjarri hringiðu heimsins, völdum og áhrifum. Bréf annarra ættmenna til Páls hafa varðveist og nýtir höfundur þau gögn einnig. Höfundur rekur æviferil Sigríðar en veitir jafnframt áhugaverða innsýn í íslenskt samfélag og hversdagslíf fólks á 19. öld.“
„Það er mér mikils virði að fá viðurkenningu Hagþenkis fyrir bók mína, Strá fyrir straumi. Ævi Sigríði Pálsdóttur 1809-1871. Ég tek á móti henni með þakklæti og gleði,“ sagði Erla Hulda meðal annars í þakkarræðu sinni áðan:
„Í bókinni koma saman þræðir úr rannsóknum mínum til áratuga. Bókin byggir á sendibréfum, en það er heimildaflokkur sem ég hef lengi unnið með. Bókin snýst um konu, en saga kvenna hefur verið viðfangsefni mitt og ástríða í hartnær 40 ár. Loks er það ævisöguformið sjálft, hin sagnfræðilega ævisaga sem aðferð til að rannsaka og segja sögu. Til skamms tíma þótti það varla verðugt viðfangsefni að skrifa ævisögu um konu, hvað þá óþekkta konu á borð við Sigríði.“
Spurð hvort viðurkenningin hafi komið henni á óvart segir Erla Hulda svo vera.
„Ég hefði orðið pínulítið svekkt ef ég hefði ekki fengið tilnefningu, svo ég sé bara hreinskilin með það,“ segir hún og hlær.
„Þarna voru tilnefndar tíu bækur og ég hugsaði með mér að þetta væri svolítið nýstárleg bók svo ég vonaðist til að fá tilnefningu. Ég varð því mjög ánægð þegar ég var tilnefnd og vonaði auðvitað að verðlaunin myndu enda hjá mér en það var alls ekki sjálfgefið. Ég bjóst ekkert endilega við því þar sem þarna voru önnur frábær verk.
Þannig að maður gengur aldrei að neinu vísu þegar kemur að svona tilnefningum eða verðlaunum því nefndirnar vinna eftir alls konar forsendum og fólk hefur mismunandi skoðanir þegar það er að vega og meta verk. Ég var bara ofsalega glöð yfir að mér skyldi hlotnast þessi heiður að lokum.“
Nánar verður rætt við Erlu Huldu á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, miðvikudaginn 26. febrúar.