„Vonaði auðvitað að verðlaunin myndu enda hjá mér"

Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, var …
Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, var verðlaunuð í Þjóðarbókhlöðunni fyrr í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Erla Hulda Hall­dórs­dótt­ir, pró­fess­or í sagn­fræði við Há­skóla Íslands, hlaut rétt í þessu Viður­kenn­ingu Hagþenk­is 2024 fyr­ir bók sína Strá fyr­ir straumi – ævi Sig­ríðar Páls­dótt­ur 1809-1871 en af­hend­ing­in fór fram í Þjóðar­bók­hlöðunni.

„Að fá viður­kenn­ingu fyr­ir fræðirit sem tók mörg ár í vinnslu og ég lagði líf og sál í hef­ur mikla þýðingu fyr­ir mig,“ seg­ir Erla Hulda innt eft­ir viðbrögðum.

„Sér­stak­lega af því að verkið er um óþekkta konu. Þetta er kvenna­saga, saga konu sem var uppi á fyrri hluta 19. ald­ar og var ekki þekkt fyr­ir störf sín, kven­rétt­indi eða eitt­hvað slíkt. Hún var því ekki með það sem stund­um hef­ur verið kallað „verðug­leiki“ í sög­unni eins og fólk sem fær skrif­aðar um sig bæk­ur af því að það hef­ur gert eitt­hvað „merki­legt“. Hún fell­ur því ekki und­ir það.“

Viðamikið verk um heila ævi konu

Alls voru tíu rit til­nefnd en Hagþenk­ir hef­ur frá ár­inu 1986 veitt viður­kenn­ingu fyr­ir fræðirit, náms­gögn eða aðra miðlun fræðilegs efn­is til al­menn­ings og er það viður­kenn­ingaráð Hagþenk­is, skipað fimm fé­lags­mönn­um, sem stend­ur að val­inu.

Viður­kenn­ing­in felst í sér­stöku viður­kenn­ing­ar­skjali en að auki fær vinn­ings­haf­inn 1.500.000 kr. í verðlauna­fé.

Í um­sögn dóm­nefnd­ar­inn­ar seg­ir að um sé að ræða viðamikið verk um heila ævi konu, að stór­um hluta með orðum henn­ar sjálfr­ar, í krafti þeirra fjöl­mörgu bréfa sem hún skrif­ar til Páls bróður síns á yfir 50 ára tíma­bili.

„Slík­ar heim­ild­ir um líf kvenna er ekki víða að finna þegar um 19. öld­ina er að ræða enda var staður kvenna fjarri hringiðu heims­ins, völd­um og ­áhrif­um. Bréf annarra ætt­menna til Páls hafa varðveist og nýt­ir höf­und­ur þau gögn einnig. Höf­und­ur rek­ur ævi­fer­il Sig­ríðar en veit­ir jafn­framt áhuga­verða inn­sýn í ís­lenskt sam­fé­lag og hvers­dags­líf fólks á 19. öld.“

Þakk­lát og glöð

„Það er mér mik­ils virði að fá viður­kenn­ingu Hagþenk­is fyr­ir bók mína, Strá fyr­ir straumi. Ævi Sig­ríði Páls­dótt­ur 1809-1871. Ég tek á móti henni með þakk­læti og gleði,“ sagði Erla Hulda meðal ann­ars í þakk­arræðu sinni áðan:

„Í bók­inni koma sam­an þræðir úr rann­sókn­um mín­um til ára­tuga. Bók­in bygg­ir á sendi­bréf­um, en það er heim­ilda­flokk­ur sem ég hef lengi unnið með. Bók­in snýst um konu, en saga kvenna hef­ur verið viðfangs­efni mitt og ástríða í hart­nær 40 ár. Loks er það ævi­sögu­formið sjálft, hin sagn­fræðilega ævi­saga sem aðferð til að rann­saka og segja sögu. Til skamms tíma þótti það varla verðugt viðfangs­efni að skrifa ævi­sögu um konu, hvað þá óþekkta konu á borð við Sig­ríði.“

Hefði orðið svekkt að fá ekki til­nefn­ingu

Spurð hvort viður­kenn­ing­in hafi komið henni á óvart seg­ir Erla Hulda svo vera.

„Ég hefði orðið pínu­lítið svekkt ef ég hefði ekki fengið til­nefn­ingu, svo ég sé bara hrein­skil­in með það,“ seg­ir hún og hlær.

Erla Hulda segist bæði þakklát og glöð að hafa hlotnast …
Erla Hulda seg­ist bæði þakk­lát og glöð að hafa hlotn­ast sá heiður að fá Viður­kenn­ingu Hagþenk­is í ár. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

„Þarna voru til­nefnd­ar tíu bæk­ur og ég hugsaði með mér að þetta væri svo­lítið ný­stár­leg bók svo ég vonaðist til að fá til­nefn­ingu. Ég varð því mjög ánægð þegar ég var til­nefnd og vonaði auðvitað að verðlaun­in myndu enda hjá mér en það var alls ekki sjálf­gefið. Ég bjóst ekk­ert endi­lega við því þar sem þarna voru önn­ur frá­bær verk.

Þannig að maður geng­ur aldrei að neinu vísu þegar kem­ur að svona til­nefn­ing­um eða verðlaun­um því nefnd­irn­ar vinna eft­ir alls kon­ar for­send­um og fólk hef­ur mis­mun­andi skoðanir þegar það er að vega og meta verk. Ég var bara ofsa­lega glöð yfir að mér skyldi hlotn­ast þessi heiður að lok­um.“

Nán­ar verður rætt við Erlu Huldu á menn­ing­arsíðum Morg­un­blaðsins á morg­un, miðviku­dag­inn 26. fe­brú­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert