„Þetta var auðvitað tilfinningaþrunginn dagur,“ segir Kristrún Mjöll Frostadóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is á þokudrunguðu Scandic Holmenkollen-hótelinu í Ósló þar sem árlegur leiðtogafundur SAMAK fór fram í dag – en SAMAK er samstarfsvettvangur jafnaðarflokka og alþýðusambanda á Norðurlöndum.
Ummæli ráðherra hér að ofan vísa þó ekki til jafnaðarmannafundarins, sem fulltrúar allra norrænu ríkjanna sóttu, heldur heimsóknar fjölda vestrænna leiðtoga til Kænugarðs í Úkraínu í gær, daginn sem markaði þriggja ára samfellt innrásarstríð Rússa sem réðust með oddi og egg gegn nágrannaríkinu að morgni 24. febrúar 2022.
„Það er ótrúlegt að þrjú ár séu liðin,“ heldur Kristrún áfram, „og ég held að það sé mjög mikilvægt núna fyrir Úkraínumenn – eftir miklar sviptingar í alþjóðamálum þar sem ýmislegt hefur verið sagt – að hafa fundið fyrir þessum stuðningi.“
Nefnir hún samstarfsvettvang NB-8-ríkjanna svokölluðu, Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, og segir þar gríðarmikilvægt samstarf fyrir Ísland að koma að, „ekki bara það sem snýr að varnarmálum, Úkraína hefur treyst þessum hópi mjög vel, hann hefur verið skipulagður og unnið saman í framlögunum sínum.
Þau fjárframlög sem við höfum lagt til Úkraínu á sviði varnarmála höfum við sett í gegnum danska módelið og fé sem gefið hefur verið til jarðsprengjuleitar og -eyðingar hefur verið í samvinnu við Litáen. Við erum að reyna að fara inn með peningana þar sem þeir hafa mest áhrif og það höfum við gjarnan gert í samstarfi við þessar þjóðir,“ segir Kristrún.
Spurð nánar út í Kænugarðsheimsóknina, til dæmis hvort erlendu gestunum hafi gefist færi á að eiga orð við almenna borgara, segir ráðherrann lítið svigrúm hafa gefist til slíks.
„Þarna var náttúrulega gríðarleg öryggisgæsla og þessi fundur litaðist auðvitað af því. Þarna voru margir leiðtogar komnir saman og stór hluti af fundinum fór auðvitað fram á hóteli,“ segir hún. „Við komum saman á Maidan-torginu og vorum þar úti og það var mjög áhrifamikil stund – að sjá minninguna um þá sem hafa fallið í stríðinu,“ bætir hún við, en á torginu hefur þúsundum fána verið stungið niður í jarðveg á afmörkuðum reit til minningar um fallna Úkraínumenn.
Hvað þykir þér um það útspil Bandaríkjamanna að ætla sér að einoka friðarviðræður án aðkomu evrópskra leiðtoga – og jafnvel án aðkomu Úkraínumanna sjálfra?
„Við höfum verið mjög skýr á því í samfloti við Evrópu,“ svarar Kristrún. „Við eigum mjög sterkt samband við Bandaríkin og það verður áfram sterkt. Við höfum ákveðna sérstöðu í því að vera staðsett mitt á milli Bandaríkjanna og Evrópu og munum alltaf eiga gott samband við Bandaríkin – við treystum á þau.“
Það breyti þó ekki mikilvægi þess, að sögn ráðherrans, að Úkraína eigi sæti við borðið í þeim viðræðum sem nú eru að fara af stað, það tekur Kristrún skýrt fram.
„Þetta stríð er auðvitað líka öryggismál fyrir Evrópu og við höfum talað fyrir því og stutt það að Evrópa eigi sæti við borðið. Um það hafa allir þessir fundir undanfarið snúist, til dæmis í München um síðustu helgi þar sem öryggismálaráðstefnan var, hvernig Evrópa geti þétt raðirnar og verið eitt, ef svo má segja, og átt sæti við borðið. Ógnin sem stafar af Rússlandi snýr ekki að Úkraínu einni, heldur að álfunni allri,“ segir ráðherra.
Þetta megi glöggt ráða af umræðum á leiðtogafundi SAMAK, Finnar hafi gríðarlöng landamæri við Rússland og séu áhyggjur Atlantshafsbandalagsríkisins nýja eftir því. „Það skiptir bara gríðarlega miklu máli hvernig svona viðræður fara fram og þar er krafan skýr.“
Kveðst Kristrún hafa fullan skilning á vilja fólks til að stoppa stríð og blóðsúthellingar. „Ég held að það sé mjög mannleg krafa, sérstaklega fyrir okkur Íslendinga sem erum mjög fjarlægir þessum viðburði. Við erum ekki með her, við eigum ekki mikla sögu af svona samskiptum. En það skiptir samt miklu máli að hafa í huga að vopnahlé, á hvaða forsendum sem er, gengur ekki upp,“ segir Kristrún ákveðin.
Vopnahlé geti brugðist og það þurfi að verja með öryggisráðstöfunum. „Ef vopnahlé er gert á röngum forsendum, án Úkraínu, án eðlilegra krafna og Úkraínumenn eru settir í erfiða stöðu, þá varir það vopnahlé ekkert endilega. Hvernig að þessu er staðið skiptir öllu máli, ekki bara að stoppa stríðið á morgun sama hvað,“ heldur hún áfram og er í framhaldinu spurð út í fund dagsins, þann sem kenndur er við SAMAK.
„Við hittumst einu sinni á ári, leiðtogar allra jafnaðarflokka á Norðurlöndunum, og þetta er gríðarlega mikilvægur vettvangur fyrir okkur,“ segir Kristrún og bendir í framhaldinu á að þetta sé alls ekki algengt, að flokkar úti í heimi, hvað þá á Norðurlöndunum, hafi með sér slíkan vettvang.
„Þetta er líka vettvangur með verkalýðshreyfingunni þannig að forystufólk allra alþýðusambanda á Norðurlöndunum, líka frá Íslandi, forseti ASÍ og fleiri, eru hérna með okkur í dag,“ segir ráðherra frá.
Kveður hún samstarfið við verkalýðshreyfinguna vera mun beinna á Norðurlöndunum en í öðrum heimshlutum. Fulltrúar hennar sitji gjarnan í stjórn jafnaðarflokka landanna og hún sé virkari inni í flokkunum.
„Og hingað komum við til þess að bera saman okkar bækur og fá ráð,“ segir Kristrún sem sjálf kveðst hafa nýtt samráðsvettvang þennan mikið áður en hún varð ráðherra, svo sem til þess að öðlast hugmyndir um hvernig styrkja mætti Samfylkinguna. „Nú kem ég í fyrsta sinn hérna inn sem forsætisráðherra og ég þekki tvo aðra forsætisráðherra úr þessu samstarfi frá fyrri tíð. Þetta er gríðarlegur styrkur fyrir Ísland líka því þegar á reynir, þegar þarf að hafa sambönd og taka upp símann, hefur þetta reynst mjög vel,“ segir hún.
Umræðan um öryggismál sé eðlilega ofarlega á baugi, þrír forsætisráðherrar á svæðinu að koma frá Kænugarði, en auk Kristrúnar eru það norski forsætisráðherrann Jonas Gahr Støre og hans danska starfssystir Mette Frederiksen, og er Kristrún nýstigin úr ræðustól á blaðamannafundi jafnaðarmannaleiðtoga norrænu ríkjanna. Stóðu þar fyrir svörum, auk áðurnefndra, Magdalena Andersson, leiðtogi sænska Socialdemokraterna-flokksins, og Antti Lindtman sem leiðir finnska jafnaðarmannaflokkinn Suomen Sosialidemokraattinen Puolue.
„Hér höfum við til dæmis velt því fyrir okkur hvernig aukin áhersla á öryggismál tvinnast saman við það háa velferðarstig sem við njótum á Íslandi og í Skandinavíu,“ segir ráðherra.
Hvað þykir þér, sem leiðtoga jafnaðarmannaflokks, um þennan mikla uppgang hægriöfgaflokka í Evrópu sem við nú sjáum, svo sem Alternative für Deutscland (Valkosts fyrir Þýskaland) og Rassemblement national (Þjóðfylkingarinnar) í Frakklandi?
„Ég hef auðvitað áhyggjur af þessu,“ svarar Kristrún, „og ég hef gríðarlegar áhyggjur af því að í Þýskalandi til dæmis er um að ræða flokk sem er í hálfgerðri afneitun, til dæmis gagnvart helförinni, og hefur gert lítið úr þeim atburðum. Ég held að við hljótum að vera meðvituð um það, á tímum sem þessum – þegar merki eru um ákveðnar öfgar og erfiða stöðu minnihlutahópa – að öll umræða, sem gefur til kynna að við lærum ekki af sögunni, er gríðarlega vond,“ heldur hún áfram.
Vissulega sé það staðreynd að AfD hafi sína kjósendur og fólki sé frjálst að kjósa eftir eigin sannfæringu, „en það er auðvitað dregin lína í sandinn einhvers staðar og ég veit að aðrir flokkar í Þýskalandi hafa dregið hana, þetta er auðvitað sérstakt, þetta með helförina, og það situr gríðarlega í fólki.“
Kristrún segir AfD vitanlega hafa vaxið fiskur um hrygg vegna útlendingamála og umræðu um þau. Sá málaflokkur sé þó tekinn að dúkka upp hjá fleiri flokkum en öfgaflokkum.
„En þá kannski á uppbyggilegri hátt – fólk er meðvitað um að það þarf að halda betur utan um ákveðnar ákvarðanir í þessum málum. Það skiptir máli hvernig tekið er á móti fólki, hve hratt er tekið á móti fólki, það sé hluti af samfélaginu og þess háttar. Það er alls ekki svo að þetta sé eini vettvangurinn fyrir umræðu um útlendingamál eða innflytjendamál. Það er bara óþægileg staða sem upp er komin og við verðum bara að sjá hvernig spilast úr þessu,“ segir Kristrún.
Fram undan hjá ráðherra er þétt dagskrá á innlendum vettvangi.
„Við verðum með ríkisstjórnarfund í Reykjanesbæ í lok vikunnar og munum afgreiða nokkuð mörg mál. Við settum okkur það markmið að koma ákveðnum fjölda mála inn í þingið núna fyrir febrúarlok svo ég bíð bara eftir stórum bunka frá ríkisstjórninni sem ég vona að sé búin að vera dugleg,“ segir forsætisráðherra og brosir út í annað.
Fjármálaáætlun sé á leið í undirbúning og segir Kristrún fjármálastefnu sitjandi ríkisstjórnar geysimikilvæga. „Við þurfum að ákveða hve hratt við ætlum að fara í að ná endum saman hjá ríkisstjórninni, við erum að erfa halla sem hefur verið í langan tíma og það eru stór pólitísk mál fram undan.
Ég hlakka bara til að koma heim, þar verður nóg að gera og þar verður fókusinn fyrst og fremst að vera,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra áður en næsta lota SAMAK-ráðstefnunnar á Holmenkollen kallar hana inn í fundarsal Scandic-hótelsins.