„Að sjálfsögðu munum við rýna í þennan samning“

Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS segir að rýnt verði í samninga …
Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS segir að rýnt verði í samninga kennara. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon og Árni Sæberg.

Vilhjálmur Birgisson segir að samningar kennara geti komið til með að hafa áhrif á þá samninga sem eftir á að semja um á vinnumarkaði. Veltir hann því fyrir sér að komið sé fordæmi þannig að virðismat verði gert í samningum við verkalýðsfólk í landinu.

„Ég vil byrja á því að óska kennurum til hamingju með samningana. Að sjálfsögðu munum við rýna í þennan samning og skoða hvað í honum felst. Því við fórum í þá vegferð með tekjulægsta fólkinu á vinnumarkaði að ná niður hér verðbólgu og vöxtum og tókum mikla áhættu,“ segir Vilhjálmur. 

„En það er mikilvægt að allir rói í sömu átt. Ekki bara verkalýðshreyfingin, heldur líka ríki, sveitarfélög, verslun og þjónusta. Eitt er víst, að það verður ekki bara verkafólk á vinnumarkaði sem æxlar þá ábyrgð,“ segir Vilhjálmur. 

Virðismat hjá verkafólki  

Samningur kennara er sagður með hækkun upp á um 24% á samningstímanum auk þess sem farið verði í virðismat á störfum kennara. Til samanburðar hefur verið samið um u.þ.b. 14-15% hækkun á almennum vinnumarkaði í undanförnum kjarasamningum.

Að sögn hans er ekkert uppsagnarákvæði í þeim samningum sem þegar hafa verið undirritaðir.

„En kannski er kominn vegvísir að því að gert verði virðismat á störfum verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði og krafan verður ekki ósennilega þannig að verkafólk á almennum vinnumarkaði mun krefjast sambærilegra samninga á við opinbera markaðinn,“ segir Vilhjálmur.

Gæti haft áhrif á samninga í náinni framtíð 

Hann segir að rýnt verði í samninga kennara en það er ekki hægt fyrr en kennarar hafa samþykkt þá. Að sögn Vilhjálms á m.a. eftir að semja við verkafólk í stóriðju í þessari lotu.

„En þessi samningur (kennara) gæti haft áhrif á þá sem eftir eru á vinnumarkaði og einnig þá samninga sem eru lausir í náinni framtíð. Það hallar t.d. verulega á verkafólk á almennum vinnumarkaði í samanburði við opinbera markaðinn. Mér reiknast það til að launataxtar á almennum vinnumarkaði séu 30-50 þúsund krónum lægri þar en hjá sveitarfélögum t.a.m. Þá eru verkamenn á almennum markaði ekki búin að fá inn styttingu vinnuviku,“ segir Vilhjálmur auk þess sem hann segir að ýmis réttindi séu lægri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert