Breytingar hafa verið gerðar á stjórnkerfi og skipuriti Kópavogsbæjar en í breytingunum felst að stjórnsýslusvið og fjármálasvið bæjarins verða lögð niður.
Í stað þeirra verða til fjórar skrifstofur um verkefni sviðanna: Skrifstofa umbóta og þróunar, skrifstofa þjónustu, skrifstofa mannauðs og kjaramála og skrifstofa áhættu- og fjárstýringar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ en breytingarnar voru samþykktar á fundi bæjarstjórnar Kópavogs í gær. Bætt þjónusta við íbúa, aukin skilvirkni og skýrari hlutverk og ábyrgð stjórnsýslunnar eru meginmarkmið breytinganna.
Fram kemur enn fremur í tilkynningunni að bæjarritari verði í skipuriti næstráðandi bæjarstjóra og verður yfirmaður lögfræðiþjónustu, skjalaþjónustu og þjónustu við bæjarstjóra og fastanefndir. Skrifstofustjórar heyra beint undir bæjarstjóra eins og sviðsstjórar fagsviða.
„Kópavogsbær er stækkandi sveitarfélag og það var orðið tímabært að endurskoða stjórnsýslu bæjarins í takt við breyttar þarfir. Meginmarkmið breytinganna er að skýra og skerpa hlutverk miðlægrar stjórnsýslu,“ er haft eftir Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs, í tilkynningunni.
Hún segir að efla eigi þjónustu við íbúa bæjarins meðal annars með aukinni stafrænni þjónustu. Þá eigi áfram að standa vörð um góðan rekstur og ábyrga áhættu- og fjárstýringu með því að efla greiningar á rekstri einstakra málaflokka, þvert á svið og skrifstofur hjá Kópavogsbæ.
Auglýst verður á næstu dögum eftir skrifstofustjórum þriggja af fjórum nýrra skrifstofa: Þjónustustjóra, umbóta- og þróunarstjóra og áhættu- og fjárstýringarstjóra. Núverandi mannauðsstjóri verður yfir skrifstofu mannauðs- og kjaramála.
Framkvæmdastjórn sveitarfélagsins verður í kjölfar breytinganna auk bæjarstjóra skipuð bæjarritara, mannauðsstjóra, þjónustustjóra, áhættu- og fjárstýringarstjóra, umbóta- og þróunarstjóra, sviðsstjóra velferðarsviðs, sviðsstjóra menntasviðs og sviðsstjóra umhverfissviðs.
Breytingarnar taka gildi um næstu mánaðamót.