Faðir stúlku sem varð fyrir hrottafengnu ofbeldi á skólalóð Breiðagerðisskóla í október árið 2023, þegar tveir drengir réðust á hana með stíflueyði, segir viðbrögð kerfisins eftir árásina hafa verið „skrítin“.
Enginn hafi gripið dóttur hans almennilega. Upplifði hann að það hefði alfarið verið á ábyrgð foreldranna að fá kerfið til að bregðast við.
Hann spyr hvers vegna við bjóðum börnum upp á aðstæður sem fullorðnir myndu aldrei sætta sig við.
Faðirinn opnaði sig um árásina og eftirmála hennar í viðtali við Morgunblaðið á mánudag.
Stúlkan var tólf ára en drengirnir sem réðust á hana tólf og ellefu ára.
Yngri drengurinn var með stúlkunni í skóla og var honum vikið þaðan í viku að beiðni foreldra hennar. Þá hafði stúlkan þegar misst þrjár vikur úr námi.
Síðar átti hún eftir að hrökklast úr skólanum þegar í ljós kom að hinn drengurinn, sem ekki var skólabróðir hennar, var farinn að sækja skólalóð Breiðagerðisskóla á skólatíma. Stúlkan glímir í dag við afleiðingar árásarinnar sem eiga eftir að fylgja henni alla ævi.
„Auðvitað finnst manni þetta rosalega skrítin viðbrögð. Ég hugsa bara að fullorðið fólk myndi aldrei sætta sig við svona á vinnustað. Ef það kæmi upp svona mál milli tveggja vinnufélaga, það yrði ekki boðið upp á þetta. En við virðumst einhvern veginn ætla að bjóða börnunum okkar upp á þetta, að troða þeim saman með gerendum sínum, sama hvað.“
„Dóttir mín lendir í rosalega grófu og hrottafengnu ofbeldi. Hún er nörruð upp á skólalóð um kvöld af einum skólafélaga sínum og vini hans og þeir kasta framan í hana poka með stíflueyði og skilja hana bara eftir þar sem hún er sjónlaus og skæld,“ segir Máni Eskur Bjarnason, faðir stúlkunnar, þegar hann rifjar upp árásina.
„Fyrir einhverja guðs mildi, í stað þess að fara heim, þá fattar hún að hlaupa í næsta hús. Þar er rosalega gott fólk, sem er heima, og opnar og sér að það er eitthvað að og veitir fyrstu hjálp, rétt, og hringir á sjúkrabíl. Hún fer beint niður á bráðamóttöku og er þar í nokkra tíma. Þar er kallaður út gjörgæslulæknir til að athuga hvort að stíflueyðirinn hafi farið ofan í lungu, þar sem hann gæti brennt öndunarfærin. Það voru nokkur korn komin. Öll viðbrögð verða til þess að hún missir ekki sjónina,“ segir hann enn fremur.
„Ég get ekki ímyndað mér sársaukann sem hún fór í gegnum.“
Foreldrarnir tilkynntu árásina til lögreglu og voru drengirnir sóttir og yfirheyrðir strax daginn eftir. Sakhæfisaldurinn á Íslandi eru fimmtán ár og er niðurstaðan úr kæruferlinu sögð munu einungis hafa áhrif á greiðslu úr tryggingum til fjölskyldunnar.
Eftir að foreldrarnir kærðu málið til lögreglunnar fengu þau þær upplýsingar að annar drengurinn, sem ekki var í sama skóla og stúlkan, væri með nokkur mál á bakinu. Þá var hann aðeins tólf ára.
„Við erum alveg með fullt af tifandi tímasprengjum í samfélaginu. Við grípum þá ekki, við gerum ekkert,“ segir Máni.
Stúlkan sneri aftur í skólann þremur vikum eftir að drengirnir réðust á hana.
„Við þurfum að hringja allt, við þurfum að hringja upp í Austurmiðstöð, við þurfum að hringja til að fá fund með skólanum. Og það er eins og þau ætli ekki að gera neitt af því að þetta var utan skólatíma og snerti þau ekki. Upplifunin var bara að það vissi enginn hvað hann ætti að gera.“
Máni bókaði tíma hjá sálfræðingi fyrir sjálfan sig eftir að dóttir hans sneri aftur í skólann.
„Sálfræðingurinn spyr mig hvaða áætlanir séu í gangi í skólanum, hvort það sé eitthvað þar fyrir hana. Þá var ekki búið að setja neinar áætlanir í gang. Þannig að ég þurfti að hringja
í skólann og sjá til þess að hún fengi sömu aðstoð og börn sem eru búin að missa einhvern nákominn, það er til meðferðarúrræði fyrir það. Svo fæ ég nóg og bið um viðtal við skólastjórann,“ segir Máni.
„Það var eins og af því að þetta væri blaðamál þá þætti fólki óþægilegt að ræða þetta. Ég held samt að þetta sé allt almennilegt og gott fólk, í öllum þessum kerfum. Þetta er allt fólk sem vill vel. En hann segir bara við mig skólastjórinn að hann geti bara vísað skólafélaga hennar úr skóla í sjö daga. Hann hafi ekki önnur úrræði. Þau geti reynt að passa að þau hittist ekki í tvær vikur í skólanum. Þau voru ekki í sama árgangi, hann var ári yngri.“
Eins og fyrr segir varð stúlkan að lokum að hætta í grunnskólanum og flytja inn til föður síns sem var nýfluttur í annað hverfi.
Máni segir engan bera ábyrgð í svona málum nema þolendur ofbeldisins og aðstandendur þeirra.
Hann ítrekar að hann hafi ekki ætlað að ræða mál dóttur sína við fjölmiðla.
„En svo kom þessi umfjöllun um Breiðholtsskóla – maður sér hvað þessir foreldrar eru að ganga í gegnum og hvað kerfið er máttlaust og óvirkt, og fer í það að verja sjálft sig. Það er enginn tilbúinn að taka umræðuna af einhverri dýpt.“