Fyrstu farþegarnir gengu um nýjan brottfararsal Keflavíkurflugvallar í dag. Salurinn er í austurálmu flugstöðvarinnar en framkvæmdir við hana hófust árið 2021. Álman telur alls um 25 þúsund fermetra og er ríflega 30% stækkun á flugstöðinni eins og hún hefur verið á undanförnum árum. Þrír nýir veitingastaðir hafa þegar opnað í nýbyggingunni. Er breytingin bæði farþegum og starfsfólki til aukinna þæginda.
Framkvæmdin kostar tæpa 30 milljarða króna og er á áætlun, bæði hvað varðar tíma og kostnað. Sex ný brottfararhlið í austurálmu bætast nú við þau 18 sem fyrir eru en þar af eru fjögur brottfararhlið með landgangi alla leið út í flugvél.
Brottfararsalurinn er í raun annar áfangi austurálmu en á árinu 2023 var jarðhæðin tekin í notkun, sem hýsir nýjan töskusal með nýjum töskubeltum, Þá var einnig nýtt farangurskerfi í kjallara byggingarinnar tekið í notkun til hægðarauka fyrir starfsfólk vallarins.
Raunprófun var gerð á starfsemi í brottfararsalnum í dag þegar hluti farþega fór þar í gegn og um rútustæði. Þá verða ný flugvélastæði opnuð næstu þrjá miðvikudaga þannig að fyrstu farþegar ganga um nýjan landgang í næstu viku. Áætlað er að opna brottfararsalinn formlega í mars.
Verslanir og veitingastaðir hafa fengið uppfærslu í flugstöðvarbyggingunni á undangengnum 24 mánuðum. Nýja austurálman tengist einmitt við gömlu bygginguna þar sem gamli Loksins-bar var en þar er komin ný Mathöll með þremur nýjum veitingastöðum.
La Trattoria er ítalskur veitingastaður og vínbar, sem einnig er í Hafnartorg Gallery. Zocalo er mexíkóskur veitingastaður í eigu Íslendinga og hamborgarastaðinn Yuzu ættu flestir að vera farnir að þekkja en hann er á fimm stöðum á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði.
Þá hefur verið opnaður veitingastaður sem fólk getur sótt vilji það grípa með sér eitthvað fljótlegt, svokallaður „grab and go-staður“.
Á þriðju hæð austurálmu verða framtíðar landamærin frá Íslandi og er hún tilbúin undir innréttingar. Fjórða hæðin mun þá hýsa skrifstofur og aðstöðu starfsfólks. Samhliða framkvæmdum við austurálmu hafa verið gerðar breytingar á flughlaði sem meðal annars fela í sér uppbyggingu nýs eldsneytiskerfis þannig að ekki þurfi lengur að fylla á vélarnar með tankbílum.
Framkvæmdir við austurálmuna hófust á árinu 2021 og þegar allt er talið; austurálman, flugvélastæðin og landgangarnir er kostnaður við framkvæmdir 29,5 milljarðar króna.
Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar á Keflavíkurflugvelli, segir vel hafa gengið á framkvæmdatímanum og framkvæmdin sé á áætlun eða innan vikmarka, bæði þegar kemur að tíma og kostnaði.
Byggingin er í heild sinni 25 þúsund fermetrar sem Guðmundur Daði segir vera 30% stækkun á þeim 80 þúsund fermetrum sem fyrir voru. Til samanburður er grunnflötur Hörpunnar um 30 þúsund fermetrar.
Austurálma rís 31 metra frá jörðu en til samanburðar eru turnar Akureyrarkirkju 26 metra frá jörðu. Byggingin er 66 metra breið, sem er um það bil breidd fótboltavallar í fullri stærð og er lengd hennar 124,5 metrar, nokkuð lengra en þrír handboltavellir í fullri stærð.
Spurður um svokallað endurstofnverð Keflavíkurflugvallar segir Guðmundur það ekki hafa verið reiknað út en miðað við hvað framkvæmdirnar nú hafa kostað megi gera ráð fyrir að það nálgist 300 milljarða króna.
Guðmundur segir austurálmuna mikilvægan þátt í að auka gæði flugvallarins og styrkja hann sem tengistöð og bæti samkeppnishæfi hans. Álman gerir næstu áfanga í þróun Keflavíkurflugvallar í raun mögulega.
Töskusalurinn sé rúmbetri og bæti alla farangursafhendingu. Nýtt farangurskerfi geri afhendingu farangurs einnig skilvirkari.
Nýr rúmgóður brottfararsalur bætir aðstöðu fyrir farþega mikið að sögn Guðmundar. Þá segir hann skipta miklu að fá fleiri landganga beint út í vél. Mikið ákall hafi verið um að bætt væri við slíkum landgöngubrúm, bæði frá farþegum og flugfélögum.
„Nýja veitingasvæðið fjölgar svo auðvitað valkostum fyrir gesti flugvallarins,“ segir hann.
Þegar brottfararsalurinn opnar mun hann að sögn Guðmundar Daða eingöngu nýtast farþegum sem ferðast innan Schengen-svæðisins, þ.e. innan Evrópu.
„En þetta verða bæði Íslendingar og tengifarþegar og þegar landmærin út úr landinu opna á þriðju hæðinni mun um helmingur allra tengifarþega ganga í gegnum þessa byggingu.“
Samkvæmt þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar til ársins 2045 er verið að stefna að stækkun flugstöðvarinnar þannig að hún verði alls um 400 þúsund fermetrar. Hermir það samkvæmt Guðmundi vel við umfang vaxtar starfseminnar og því að nægt rými verði í flugstöðinni fyrir farþega og starfsfólk.
Gert er ráð fyrir að hefja framkvæmdir við næsta stóra áfanga stækkunarinnar sumarið 2026 og búast má við að meira og minna verði framkvæmdir í gangi til ársins 2045.
Gert er ráð fyrir að opna fyrri hluta nýs 500 metra langs austurlandgangs að um það bil átta árum liðnum en samkvæmt 10 ára áætlunum, sem nú er verið að uppfæra, er gert ráð fyrir að þá verði tilbúin um 20-25 brottfararhlið með landgöngum sem muni anna um 13 milljónum farþega um flugvöllinn en til samanburðar fara um hann á ári í dag um 8,5 milljónir farþega.
Segir Guðmundur Daði að horft sé til þess að á næstu 10-15 árum geti Isavia tvöfaldað afköst flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.