Geirfinnsmálið: Viðkvæmum upplýsingum lekið

Jón Ármann Steinsson með bókina og gögnin. Hluti þeirra er …
Jón Ármann Steinsson með bókina og gögnin. Hluti þeirra er nú á sveimi á internetinu miðað við upplýsingar sem hann fékk í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Jón Ármann Steinsson, útgefandi bókarinnar Leitin að Geirfinni, segir óprúttna aðila hafa komist yfir vinnuskjal með óbirtu efni sem til hefur staðið að láta yfirvöld hafa til að rannsaka. 

Upplýsingarnar hafa gengið undir heitinu 13. kaflinn í umfjöllun fjölmiðla. Bókin Leitin að Geirfinni sem kom út 19. nóvember 2024 hefur að geyma tólf kafla. 13. kaflinn svokallaði geymir nákvæmari lýsingar á því sem aðstandendur bókarinnar telja að hafi hent Geirfinn að kvöldi 19. nóvember 1974. Einnig segir Jón Ármann að þar sé tilgáta þeirra um afvegaleiðingu málsins hjá einstaklingum innan lögreglunnar í Keflavík á þeim tíma.

Jón Ármann segir ókláruð vinnuskjöl úr 13. kaflanum vera í dreifingu meðal fólks á netinu. 

„Við vitum ekki hvernig það gerðist en einhver hefur komist í þessi gögn og lekið þeim. Ég fékk ábendingu frá vini mínum um að hann hafi fengið þetta sent. Mér skilst að þetta sé í dreifingu á milli fólks, til dæmis á Facebook.“

Hann kann ekki skýringu á lekanum og tekur skýrt fram að aðstandendur bókarinnar hafi þar ekki átt hlut að máli. Jón Ármann harmar að þessi staða sé komin upp. 

„Þarna kemur fólk við sögu sem við teljum að hafi átt þátt í dauða Geirfinns og viti hvað gerðist. Einnig fleiri viðkvæmar upplýsingar sem tengjast vinnubrögðum lögreglunnar í málinu á sínum tíma. Þetta fólk á rétt á friðhelgi einkalífs því þau vildu ekki ræða við okkur við gerð bókarinnar. Fyrir vikið þá höfum við alltaf talið að að þessar upplýsingar og vísbendingar sem við búum yfir eigi heima hjá lögregluyfirvöldum. Þau hafi rannsóknarheimildir sem fjölmiðlafólk hafi ekki og geti rannsakað hvarf Geirfinns upp á nýtt,“ segir Jón Ármann og biður fólk vinsamlegast um að dreifa ekki gögnunum. Innihaldið eigi ekki erindi við almenning að svo stöddu auk þess sem ekki sé um lokaútgáfu af 13. kaflanum að ræða. 

Ekkert heyrist frá ráðuneytinu

Til stóð hjá útgefendum bókarinnar að gefa út bókina með 13. kaflanum eftir að ný rannsókn á afdrifum Geirfinns Einarssonar færi fram. 

Samkvæmt Jóni Ármanni hefur Dómsmálaráðuneytið ekki brugðist erindi hans um að Sigríður Þorbjörg Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra taki við gögnunum. Eins og greint var frá á dögunum ritaði Jón Ármann ráðuneytisstjóranum bréf þess efnis en hefur þar fyrir utan sagt við fjölmiðla hver vilji aðstandenda bókarinnar sé í þeim efnum. 

„Mér þykir afar undarlegt að yfirvöld í landinu skuli ekki hafa áhuga á nýjum upplýsingum og vísbendingum um óupplýst morð á Íslandi. Ég veit eiginlega ekki hvað við eigum að gera ef nýr dómsmálaráðherra vill ekki bregðast við þessu. Það er mjög miður að nú séu upplýsingar í dreifingu sem við vildum fyrir löngu síðan koma í hendur yfirvalda því þar eiga gögnin heima,“ segir Jón Ármann Steinsson í samtali við mbl.is. 

Vitni ræddi við bókarhöfund

Í fyrstu tólf köflum umræddrar bókar, sem Sigurður B. Sigurðsson skrifaði, er greint frá málsatvikum 19. nóvember 1974 eins og aðstandendur bókarinnar telja þau hafi átt sér stað út frá sínum rannsóknum og viðmælendum. En engin nöfn eru nefnd.

Vitni segist hafa séð Geirfinn verða undir í átökum í bílskúrnum við heimili hans þetta kvöld. Enginn hafi hins vegar trúað vitninu unga, sérstaklega þegar rannsókn málsins og frásagnir fjölmiðla snérust fljótt um dularfullt stefnumót í Hafnarbúðinni og símtal þar. 

Í bókinni er sú tilgáta sett fram að Geirfinnur hafi fengið far heim eftir að hafa keypt sígarettur í Hafnarbúðinni. Er það m.a. rökstutt með því að þar töpuðu sporhundar slóðinni. Þeir hefðu ekki tapað slóðinni nema hinn horfni hafi farið upp í bifreið er haft eftir þjálfara hundanna.  Einnig er vísað til nágranna sem hafi heyrt öskur og læti koma frá húsi Geirfinns þetta kvöld. 

Samkvæmt bókinni bar hvarf Geirfinns að með allt öðrum hætti en talið var. Gengur tilgáta bókarhöfunda fullkomlega í berhögg við rannsókn málsins, málflutning ákæruvaldsins og niðurstöðu Hæstaréttar árið 1980. 

Árið 2018 voru Sævar Ciesi­elski, Kristján Viðar Viðars­son­ og Guðjón Skarp­héðins­son sýknaðir í Hæstarétti af morði Geirfinns og Erla Bolladóttir sýknuð af aðild af hvarfi Geirfinns. Ekki var farið ofan í saumana á Guðmundar- og Geirfinnsmálum í það skiptið þar sem saksóknari fór fram á sýknu. 

Frá þeim tíma telst hvarf Geirfinns vera óupplýst mannshvarf og líkt og þegar lögreglan í Keflavík hætti rannsókn málsins sumarið 1975. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert