Myndbrot úr hlaðvarpinu Einni pælingu sem Þórarinn Hjartarson stýrir, hefur vakið mikla athygli, en þar setur hann sig í stellingar kristilegs íhaldsmanns sem spyr Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur hvort barnlaus ung kona geti verið formaður Sjálfstæðisflokksins og átt nokkuð í til dæmis Kristrúnu Frostadóttur, sem er móðir, í málefnum sem snúa að fjölskyldum.
Spurningin hefur vakið sterk viðbrögð og í athugasemdum við myndbrotið er henni meðal annars líkt við spurningar sem Vigdís Finnbogadóttir fékk er hún var í framboði til forseta Íslands árið 1978.
Þá er bent á að ósennilegt væri að ungur barnlaus karlmaður fengi sömu spurningu.
Skeleggt svar Áslaugar Örnu hefur jafnframt vakið athygli.
„Getur þú bara talað um málaflokka sem þú hefur upplifað sjálfur hér í þessu hlaðvarpi?“, spyr Áslaug Arna.
„Nei, vá,“ segir Þórarinn og Áslaug heldur áfram:
„Getur þú sagt fólki hvað þér finnst í málaflokkum sem þú hefur kynnt þér vel án þess að hafa upplifað endilega sjálfur?
Ég ætla að segja við þig, ég er jafn gömul og Kristrún Frostadóttir og Sigmundur Davíð þegar þau tóku við sínum flokkum. Ég hef verið í stjórnmálum í áratug og hef gríðarlega reynslu af pólitíkinni og ógrynni af málaflokkum sem ég hef sett mig inn í og myndað mér skýra stefnu og sýn um á grundvelli sjálfstæðisstefnunnar. Ég hef líka öðruvísi reynslu, ég er fjölskyldukona þó að ég eigi ekki sjálf börn.
Þú þarft ekki alltaf að eiga það sjálfur til þess að geta sett þig í spor annarra. Við erum ekki að kjósa leiðtoga sem mun einhvern tímann endurspegla alla sjálfstæðismenn, heldur leiðtoga sem getur virkjað fólkið, sett sig í spor annarra og nýtt stærðina, breiddina og þekkinguna sem býr í sjálfstæðismönnum um allt land,“ segir hún.
Myndbrotið hefur fengið um 100.000 áhorf á Instagram og má sjá það hér fyrir neðan.
Ef myndbrotið birtist ekki getur hjálpað að endurhlaða síðuna.