„Þetta er ákveðinn áfangi. Það er ekki beint léttir einhvern veginn en það er áfangi að nú höfum við náð að hnýta þá enda sem við vildum hnýta,“ segir Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands.
Kjaradeilu kennara, ríkis og sveitarfélaga lauk rétt fyrir miðnætti í gærkvöld.
„Fram undan núna er bara öðruvísi vinna og það er mikil vinna fram undan því þessi samningur gerir kröfur til okkar að vinna áfram að stóra verkefninu sem er auðvitað það að fara á þann stað sem kennarar þurfa að vera á,“ segir Magnús og vísar til þeirrar kröfu að kennarar fái sömu kjör og aðrir sérfræðingar á almennum vinnumarkaði.
Hann segir samningin vera fyrsta skrefið í langri vegferð sem nú heldur áfram.
„Ég er mjög stoltur að því að kennarasambandið fór saman í gegnum þessa vegferð. Það er í fyrsta skipti í okkar sögu sem að öll aðildarfélögin skrifa undir samning saman og að atkvæðagreiðslan verði hjá öllum félagsmönnum KÍ. Það skipti okkur mjög miklu máli.“
Nefnir Magnús að verkefnið hafi ekki verið auðvelt. Leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar og tónlistarskólar séu ólíkir að gerð og með ólíka samninga.
„Það er auðvitað eitt af því sem er gleðilegt að okkur hafi tekist.“
Hann segir þó ljóst að takið hafi of langan tíma að semja. Vísar hann til þess að deilunni var vísað til sáttasemjara 23. september á síðasta ári og voru þá vonir um að hægt væri að útkljá málin á skömmum tíma.
„En svo eins og er vitað hefur gengið á ýmsu. Það hafa verið margir kaflar og brekkur og beygjur á leiðinni þannig þetta er auðvitað ákveðinn áfangi,“ segir formaðurinn og heldur áfram:
„En um leið hefur þróunin auðvitað verið sú að við erum núna að byrja verkefni sem við erum að fara að vinna saman að og það er auðvitað mjög gleðilegt að við séum kominn á þann stað að Kennarasambandið, ríki og sveitarfélög séu að vinna núna saman að þessum markmiðum.“
Þau sameiginlegu markmið snúi t.a.m. að því að kennarar verði samkeppnishæfir í launum, fái aukna fagmennsku og, að sögn Magnúsar, fái þá hluti sem þeir þurfa að fá.