Grunaður um sölu fíkniefna, líkamsárás og slagsmál

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöld …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöld og í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan handtók mann sem er grunaður um sölu fíkniefna. Hann var með nokkuð magn fíkniefna á sér ásamt talverðu af reiðufé. Var maðurinn vistaður í fangaklefa vegna málsins.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun. Sex gista fangaklefa nú í morgunsárið.

Bifreið var dregin af dráttarbifreið að beiðni lögreglunnar en bifreiðinni hafði verið lagt fyrir innkeyrslu og lokaði þannig aðra bifreið inni. Ítrekað var reynt að hafa samband við eigenda en án árangurs. Skráningarmerki voru fjarlægð af bifreiðinni þar sem hún var ótryggð.

Tilkynnt var um slagsmál í miðbænum. Tveir voru handteknir og fluttir á lögreglustöð en þeim var svo sleppt að lokinni skýrslutöku.

Lögreglustöð 3, sem sinnir Kópavogi og Breiðholti, handtók einn vegna líkamsárásar í heimahúsi og var hann vistaður í fangaklefa vegna málsins. Þá fékk lögreglan tilkynningu um innbrot í heimahús og er málið til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert