Máli karlsmanns á þrítugsaldri sem var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir stófellda líkamsárás sem varð manni að bana á skemmtistaðnum Lúx við Austurstræti í fyrrasumar verður ekki áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins.
Þetta staðfestir Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari í skriflegu svari til mbl.is.
Dómurinn er skilorðsbundinn til þriggja ára og mun því maðurinn ekki afplána dóminn nema upp komi brot á skilorði. Maðurinn játaði brot sitt og var því ekki þörf á aðalmeðferð. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í lok desember segir að maðurinn eigi engan skaferil að baki og hafi játning hans verið skýlaus.
Atvikið átti sér stað aðfaranótt laugardagsins 24. júní. Hinn látni hét Karoliz Zelenkauskas, sem var 25 ára gamall frá Litháen. Fram kom í dómnum að maðurinn hafi veitt brotaþola eitt lófahögg með þeim „hörmulegu afleiðingum“ að hann lét lífið.
„Gögn málsins bera það með sér að brotið hefur verið ákærða þungbært og hefur hann glímt við einkenni alvarlegs kvíða og þunglyndis, auk áfallastreitu í kjölfarið,“ segir í dómnum. Ekki verður þó hægt að líta fram hjá því hversu alvarlegar afleiðingar hlutust af brotinu.
Þá var manninum gert að greiða móður þess sem hann réðst á 3 milljónir króna í skaða- og miskabætur.