Myndarleg aukning eigna lífeyrissjóða

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka. mbl.is/Kristófer Liljar

Hrein eignaaukning lífeyrissjóða var myndarleg á seinasta ári, sem endurspeglast í mjög ásættanlegri raunávöxtun, að sögn Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka.

Í lok seinasta árs voru eignir lífeyrissjóða landsmanna komnar yfir átta þúsund milljarða króna og jukust eignirnar um ríflega níu hundruð milljarða króna frá árinu á undan. Flestir lífeyrissjóðir eiga eftir að birta endanlegar ávöxtunartölur en allt bendir til þess að árið hafi verið hagfellt fyrir lífeyrissjóði og raunávöxtun góð.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur birt upplýsingar um afkomu ársins og var hrein nafnávöxtun sameignardeildar 12,4% og raunávöxtunin 7,3%. Ávöxtunarleiðir í séreign skiluðu frá 8,2% til 13,0% nafnávöxtun. Framlag erlendra hlutabréfa til ávöxtunar ársins vó þyngst og innlenda hlutabréfasafnið skilaði einnig jákvæðri ávöxtun. Landssamtök lífeyrissjóða hafa áætlað að raunávöxtun lífeyrissjóða hafi verið jákvæð um 6,5% í fyrra.

Erlendu bréfin jöfnuðu leikinn

„Hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi lækkaði umtalsvert frá áramótum og fram á mitt ár. Hins vegar náðu erlendu bréfin að jafna leikinn á móti þessari lækkun innlendu bréfanna þar sem þau hækkuðu allmyndarlega á tímabilinu. En svo fór allt í gang á þriðja fjórðungi ársins og í rauninni út árið. Erlendu hlutabréfin héldu áfram að hækka og innlendu bréfin tóku aftur við sér. Þróunin bæði á þriðja og fjórða ársfjórðungi var sjóðunum býsna hagfelld,“ segir Jón Bjarki.

Hagstæð þróun á erlendum hlutabréfamörkuðum hefur ekki síst verið drifin áfram af uppgangi tæknirisa á markaði í Bandaríkjunum og víðar vegna þróunar gervigreindar. Drýgsti hluti erlendra eigna lífeyrissjóða er í hlutabréfasjóðum sem endurspegla vísitölur og samsetningu markaða á heimsvísu og ætti vöxtur tæknifyrirtækjanna þannig að hafa óbein áhrif á ávöxtun eignasafna lífeyrissjóða og sjóðfélagar að njóta góðs af.

Spurður um horfur á þessu ári segir Jón Bjarki að þrátt fyrir þungar vikur á hlutabréfamarkaði í febrúar bendi ekkert sérstaklega til þess að lífeyrissjóðirnir muni eiga mótdrægt ár í líkingu við árin 2022 og 2023. „Núna eru vextirnir á niðurleið og það er ekkert sérstakt útlit fyrir að við séum að sigla í einhverja efnahagserfiðleika eða að komandi mánuðir ættu að verða atvinnulífinu eitthvað sérstaklega harðdrægir.“

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert