Tjón vegna eldinga sem sló niður í íbúðarhús hleypur á mörgum milljónum. Annarri eldingunni laust niður í þak hússins og hinni í jörðina við hlið þess. Mikill blossi lýsti upp himininn og jörðin nötraði.
Eldingaveðrið gerði í janúar í Mýrdal og lék grátt bæinn Garðakot í Dyrhólahverfi. Leiddu eldingarnar yfir í önnur hús á jörðinni og næstu bæi sem biðu einnig tjón.
Vigfús Páll Auðbertsson, ábúandi í Garðakoti, segir guðsmildi að enginn hafi verið heima. Hann og Eva Dögg Þorsteinsdóttir eiginkona hans voru erlendis.
Litlu mátti þó muna að sonur þeirra sem er á sextánda aldursári hefði verið kominn út í fjárhús þegar eldingunum laust niður.
„Númer eitt, tvö og þrjú var að það meiddist enginn,“ segir Vigfús Páll.
Veðrið gekk yfir Mýrdalinn 23. janúar. Heimili fjölskyldunnar í Garðakoti var óíbúðarhæft næstu þrjár vikurnar þar á eftir.
Það var ekki fyrr en í síðustu viku sem hún gat flutt aftur inn eftir viðgerðir á rafmagnskerfinu.
„Það slær niður eldingu í íbúðarhúsið okkar, gat kom á þakið á húsinu og í jörðina við hliðina á bílastæðinu fyrir utan húsið. Þessi elding veldur alveg gríðarlegu tjóni í húsinu okkar. Það er nánast allt rafkerfið ónýtt eða stórskemmt. Megnið af heimilistækjunum er ónýtt,“ segir Vigfús Páll.
Þá sprakk rafmagnsmælir út úr töflunni og fór í gegnum hurð sem stóð á móti.
Eldingin hljóp í önnur hús á jörðinni, þar á meðal gistihús.
„Í gistiheimilinu brunnu lekaliðar og rofar í rafmagnstöflunni. Milliveggur klofnaði á milli herbergja því að inni í veggnum var samskiptakapall frá íbúðarhúsinu yfir í gistihúsið. Hann klofnaði og brann. Úr gistihúsinu hleypur eldingin yfir í vinnustofu Ey Collection sem konan mín á og rekur. Úr gistihúsinu hleypur eldingin líka út í fjárhús og springur þar út í tenglum. Þetta hljóp í raun í öll hús á jörðinni og olli skemmdum.“
Fullklárað málverk á trönum var í vinnustofunni og mátti litlu muna að tjón hefði orðið á því.
„Fronturinn á varmadælunni, sem er á veggnum fyrir aftan – hann þeytist af varmadælunni. En sem betur fer þá slapp málverkið. Það hefði verið gríðarlegt tjón.“
Féð sakaði ekki.
„Sonur okkar sá um að fara í fjárhúsið. Hann bjó hjá ömmu sinni og afa á næsta bæ. Fyrir einhverja guðslukku þá var hann ekki farinn.
Hann stóð á tröppunum hjá þeim þegar eldingunni sló niður. Það munaði bara einhverjum mínútum, kannski einni eða tveimur, að hann var ekki kominn heim í Garðakot.“
„Það urðu allir varir við þetta í sveitinni. Það nötraði allt og skalf,“ segir Vigfús Páll og nefnir að nágranni hans hafi séð eldinguna.
„Hann lýsti því að húsið hefði verið eins og vígahnöttur.“
Húsið er tryggt en tjónið hleypur á mörgum milljónum.
„Við kyndum öll hús með varmadælum og þær brunnu allar. Dælurnar sjálfar kosta fjórar milljónir og þá er eftir vinnan við að skipta um þetta allt saman og ganga frá því. Rafmagnstaflan í húsinu er ónýt.“
Hann segir víða ummerki eldblossa í húsinu en að svo virðist sem að eldurinn hafi hvergi náð að loga.
„Eldingin hljóp í vatnslagnirnar í húsinu. Undir eldhúsvaskinum er skúffa fyrir sorp. Þessi skúffa springur fram á gólf og rafmagnstengillinn fyrir uppþvottavélina brennur og þeytist út úr veggnum. Það voru kranar þarna undir sem voru kolsvartir og brunnir. Það eru fötur undir sorpið. Fatan sem var innst – hún var fyrir pappa, hún var kolsvört og brunnin. En einhverra hluta vegna náði eldurinn ekki að læsa sig í pappann.“
Eldingin hljóp einnig eftir rafmagnsheimtauginni sem liggur frá Garðakoti og út í götuskápinn. Þar brunnu rofar og háspennir.
Á næstu bæjum brunnu tölvur, helluborð og bakaraofn, svo dæmi séu nefnd.
„Það er kraftur í náttúrunni.“