Sama á að gilda um biðlaun og uppsagnarfrest

Halla Gunnarsdóttir, formaður VR.
Halla Gunnarsdóttir, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn stéttarfélagsins VR hefur komist að þeirri niðurstöðu að til framtíðar skuli vera fyrirvari í ráðningarsamningi formanns félagsins að biðlaunaréttur falli niður hverfi formaður til annarra starfa.

Þetta segir Halla Gunnarsdóttir, formaður félagsins, en stjórnin fundaði um málið þann 12. febrúar.

Athygli hefur vakið að Ragnar Þór Ingólfsson, þingmaður Flokks fólksins, hafi þegið biðlaun og ótekið orlof upp á rúmar 10 milljónir króna er hann sagði af sér formennsku VR í desember. Ragnar átti rétt á biðlaunum til sex mánaða samkvæmt ráðningarsamningi. 

Allir formenn frá hruni misst embætti

Halla segir slíkan fyrirvara til framtíðar ekki hafa verið í ráðningarsamningum fyrrum formanna sem glímdu þó við öðruvísi aðstæður en Ragnar þar sem þeir voru kjörnir úr embætti. Ragnar sagði hins vegar af sér formennsku eftir að hafa verið kjörinn inn á þing fyrir Flokk fólksins.

„Þetta er auðvitað hugsað utan um það þegar fólk missir embætti í kosningum, sem allir formenn VR hafa gert frá hruni, eða ef þú, af einhverjum öðrum sökum, ákveður að hætta og ert ekki með eitthvað annað í staðinn,“ segir Halla við mbl.is.

Í samræmi við það sem sést á vinnumarkaði

Hún segir þó aðalatriðið vera að stjórn VR hafi fundað um málið en sjálf vék hún af þeim fundi sem og Bjarni Þór Sigurðsson, en þau eru bæði í framboði til formanns félagsins og myndi því málið varða þeirra hag hlyti annað hvort þeirra sigur úr spýtum.

„Þau hafa komist að þeirri niðurstöðu að til framtíðar verði þessi fyrirvari í ráðningarsamningnum við formann að biðlaunaréttur falli niður hverfi formaður til annarra starfa. Það er eðlilegt og í samræmi við það sem er á vinnumarkaði.“

Hafði ekki aðkomu að uppgjöri forvera hennar

Þá segist Halla ekki hafa haft neina aðkomu að kjaramálum eða uppgjöri hvað varðar laun forvera hennar.

Hún segir það mikilvægt fyrir félagsfólk VR að reglur séu með þeim hætti sem þekkist af vinnumarkaði.

„Það vita allir hvernig uppsagnarfrestur virkar. Biðlaun eru bara form af uppsagnarfresti og þegar þú færð greiddan uppsagnarfrest án vinnuframlags, hvort sem það er þrír eða sex mánuðir, þá fellur hann niður þegar þú ferð til annarra starfa og auðvitað á það sama að gilda um biðlaun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert