Mikil óánægja er meðal fyrirtækjaeigenda í Súðarvogi sem telja að staurar sem settir hafa verið á gangstétt hindri aðgang fólks að fyrirtækjunum og flutning á vörum. Reykjavíkurborg er sökuð um „valdníðslu á hæsta stigi“.
Borgin ber það fyrir sig að gangstéttin sé ætluð gangandi vegfarendum og að koma þurfi í veg fyrir að bílum sé lagt uppi á gangstéttinni.
Fyrirtækjarekendur segja það hins vegar þversögn að setja staura við gangstétt sem hefur vanalega ekki verið mokuð.
Jón Þráinn Magnússon, eigandi Leir og postulín og fleiri húsa í götunni, segir í samtali við mbl.is að allir í götunni séu óánægðir með stöðu mála.
„Það er búið að hefta aðgengi að öllum fyrirtækjum í götunni, þannig að ef við fáum aðföng þá þurfa bílar að vera úti á miðri götu,“ segir hann.
Þannig að staurarnir koma í veg fyrir vöruflutninga?
„Já, það er nú aðallega þess vegna sem við erum að vesenast í þessu. Þegar við erum að fara með vörur þurfum við að bera allt út á götu.“
„Það er vaðið yfir okkur bara með valdníðslu,“ segir Jón um viðbrögð borgarinnar við kvörtunum hans og annarra í götunni yfir breyttum aðstæðum.
Þá segir hann rök borgarinnar fyrir breytingunni vera að þarna verði að vera hægt að komast til dæmis með barnavagna, en nýlega bættist mikið af íbúðarhúsnæði við hverfið sem byggt var sem iðnaðarhverfi.
Þá segist hann hafa rekið fyrirtæki í götunni í 21 ár og gangstéttin hafi aldrei verið mokuð. Ákveðin þversögn sé því að staurarnir eigi að tryggja aðgengi gangandi vegfarenda þegar umrædd gangstétt er snævi þakin yfir vetrartímann.
„Fyrir utan það að þetta var byggt sem iðnaðarhverfi, svo er allt í einu farið að byggja þarna fullt af blokkum,“ bætir hann við, því fylgi – eðlilega – fjölskyldur með börn.
„En þá eru þau miklu rétthærri en við sem erum með okkar fyrirtæki hérna í götunni, og búin að vera það í 60, 70, 80 ár.“
Að sögn Jóns er sjaldan tekið rusl eða mokað í götunni, „nema bara rennt í gegnum götuna og öllu gusað upp á gangstéttirnar“, þrátt fyrir að 500 þúsund krónur fari á mánuði í fasteignagjöld.
Sem dæmi segir hann bílaþvottastöð vera í grenndinni sem þrengt hafi verið að svo um muni, nú sé töluvert erfiðara að koma bílum inn á þvottastöðina.
Raunar hafi verið þrengt verulega að flestum fyrirtækjum í götunni.
„Við erum í vandræðum með bílastæði, þeir sem eru í nýbyggðum blokkunum hafa ekki bílastæði með sínum íbúðum og leggja hjá okkur,“ segir Jón. Nýlega hafi hann verið tilkynntur fyrir að leggja uppi á gangstétt, en enginn möguleiki bjóðist annar við vöruflutninga en að leggja á gangstéttinni.