Síminn dæmdur til að greiða 400 milljónir: Hæstiréttur klofnaði

Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Hari/AFP

Hæstiréttur hefur dæmt Símann til að greiða 400 milljónir í sekt í deilu sem tengist sölu áskrifta að útsendingum frá ensku úrvalsdeildinni. 

Fimm dómarar dæmdu í málinu og skiluðu tveir þeirra sératkvæði þar sem fram kemur að þeir séu ósammála þeirri niðurstöðu meirihluta dómenda að Síminn hafi brotið gegn skilyrðum í 3. gr. sáttar frá 15. apríl 2015, sbr. sömu grein í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins 2. júlí 2015 nr. 20/2015.

Í febrúar í fyrra staðfesti Lands­rétt­ur dóm Héraðsdóms Reykja­vík­ur um að fella úr gildi ákvörðun Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins (SKE) um að leggja 500 millj­óna króna sekt á Sím­ann vegna fyr­ir­komu­lags sölu áskrifta að út­send­ing­um frá ensku úr­vals­deild­inni. SKE taldi að Sím­inn hefði brotið gegn sátt sem gerð var árið 2015 með því að selja sam­an fjar­skiptaþjón­ustu og línu­lega sjónarpsþjón­ustu.

Deilt um hvort brotið hafi verið gegn tveimur sáttum

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, sem féll í dag, að SKE, íslenska ríkið og Síminn hafi deilt um hvort Síminn hefði brotið gegn tveimur sáttum sem félagið gerði við SKE með því að gera sjónvarpsefnið Enska boltann á sjónvarpsrásinni Síminn Sport aðgengilegt fyrir áskrifendur sína að Heimilispakkanum með tilteknum kjörum.

Með ákvörðun SKE frá 28. maí 2020 var Síminn annars vegar talið hafa brotið gegn 3. gr. sáttar 15. apríl 2015 sem takmarkaði heimild hans til að tvinna saman fjarskiptaþjónustu og kaup viðskiptavina á línulegu áskriftarsjónvarpi og hins vegar gegn 19. gr. og 3. mgr. 20. gr. sáttar 23. janúar 2015 sem varðaði aðgreiningu þjónustuþátta og bann við samkeppnishamlandi samningum.

Var Símanum gerð 500.000.000 sekt vegna brotanna.

Með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 13. janúar 2021 var staðfest niðurstaða SKE um brot Símans gegn 3. gr. sáttar 15. apríl 2015 en þeim hluta ákvörðunar SKE er laut að 19. gr. og 3. mgr. 20. gr. sáttarinnar 23. janúar 2015 var vísað til nýrrar ákvörðunar eftirlitsins.

Áfrýjunarnefndin lagði 200.000.000 króna sekt á Símann vegna brotsins.

Síminn og Samkeppniseftirlitið höfðuðu ógildingarmál

Bæði Síminn og Samkeppniseftirlitið höfðuðu mál til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndarinnar. Hæstiréttur féllst á með SKE að aðgerðir Símans hefðu falið í sér brot gegn 3. gr. sáttarinnar 15. apríl 2015 þar sem áskrifendur Heimilispakkans áttu þess ekki kost að hafna aðgangi að sjónvarpsrásinni Síminn Sport sérstaklega og halda öðrum þjónustuþáttum, bæði fjarskiptaþjónustu og annarri sjónvarpsþjónustu, nema með því að segja upp áskriftinni.

Hefðu kaup þeirra á stökum þjónustuþáttum stefnda óhjákvæmilega haft umtalsverða hækkun á verði í för með sér. Þessi viðskiptakjör Símans hefðu falið í sér að viðskiptavinir hans á einu sviði keyptu eða fengju þjónustu hans á öðru sviði gegn verði sem jafna mætti til skilyrðis um að kaupa þjónustuna saman.

Þá féllst Hæstiréttur ekki á með Símanum að orðalag 3. greinar hefði verið óskýrt eða uppi væri sá vafi um skýringu hennar sem Síminn hélt fram.

Um ætluð brot gegn 19. gr. og 3. mgr. 20. gr. sáttar 15. janúar 2015 var litið til skýringa við 19. gr. sáttarinnar þar sem vísað væri til þeirrar forsendu að félögin sem sáttin tæki til væru í markaðsráðandi stöðu á þeim mörkuðum sem um ræddi. Ákvæði 3. mgr. 20. gr. sömu sáttar yrði að skýra eins og 19. gr. að þessu leyti.

Að því virtu var talið að þessi þáttur málsins hefði ekki verið að fullu upplýstur með þeim hætti sem áskilið væri í sáttinni.

Bar að hlíta skilmálum

Um ákvörðun fjárhæðar stjórnvaldssektar vegna brots gegn 3. gr. sáttar 15. apríl 2015 leit Hæstiréttur meðal annars til þess að SKE hefði hafnað beiðni Símans um að fella niður ákvæðið og að Síminn hefði ekki getað dulist að honum bar að hlíta skilmálum þess og hvað í þeim fólst.

Var Símanum gert að greiða 400.000.000 króna sekt í ríkissjóð, að því er segir í dómi Hæstaréttar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert