Sólveig Anna: „Fyrstu viðbrögð eru kannski undrun“

Sólveig Anna Jónsdóttir.
Sólveig Anna Jónsdóttir.

„Fyrstu viðbrögð eru kannski undrun á því að þarna sé samið um það sem við fyrstu sýn virðist veruleg umframhækkun en sú sem við sömdum um, bæði á almenna markaðnum og höfum fyllt inn í á opinbera markaðnum,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, um nýgerða kjarasamninga.

Hún segir ASÍ vera að fara yfir þá samninga sem kennarar og sveitarfélögin undirrituðu í gær. Ef marka má það sem fram hefur komið sé þó ljóst að hækkanir kennara séu umfram þær sem lægst launaða fólkið hjá sveitarfélögunum fékk þegar kjarasamningar þess hóps voru undirritaðir.

Ljóst að um meiri hækkun sé að ræða 

Að sögn Sólveigar Önnu bera hækkanir Eflingarfólks í Reykjavík t.a.m. með sér hækkanir upp á 16,17%-17,83% á samningstímanum. Rætt hefur verið um að hækkanir kennara nemi nærri 24%.

„Það er ljóst að samið hefur verið um verulega hærri hækkanir en Eflingarfólk fékk,“ segir Sólveig Anna.

Rætt hefur verið um virðismatskerfi sem sé hluti af samningi kennara en Sólveig Anna bendir á að þegar sé til staðar starfsmatskerfi hjá Reykjavíkurborg t.a.m.

„Við vitum því ekkert hvaða forsendur verða settar inn í það kerfi,“ segir Sólveig Anna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert