Svona náðust samningar: Hvað fela þeir í sér

Það var létt yfir fólki í Karphúsinu undir miðnætti í …
Það var létt yfir fólki í Karphúsinu undir miðnætti í gær þegar kjarasamningar voru undirritaðir. mbl.is/Árni Sæberg

Nýr kjarasamningur kennara við ríki og sveitarfélög, sem undirritaður var á tólfta tímanum í gærkvöldi, gildir út mars 2028 og felur í sér 24 prósent launahækkanir yfir tímabilið. Í samningunum er forsenduákvæði sem gerir kennurum kleift að segja honum upp samningstímanum, séu ákveðin skilyrði ekki uppfyllt. 

Kennarar gerðu kröfu um forsenduákvæði en þar til í gær höfðu sveitarfélögin ekki viljað fallast á að hafa slíkt ákvæði inn í samningnum. Varð það til þess að innanhústillögu, sem ríkissáttasemjari lagði fram á fimmtudag í síðustu viku, var hafnað af hálfu sveitarfélaganna.

Það sem gerði hins vegar útslagið í gær og varð til þess að samningar náðust, eftir fimm mánaða kjaradeilu, var að gera breytingar á forsenduákvæðinu með þeim hætti að setja inn svokallaða forsendunefnd. En það var tillaga sem kom frá samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga.

„Það varð til þess að við gátum sætt okkur við þetta og við náðum að klára samninginn,“ segir Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, í samtali við mbl.is.

Ákveðið ferli fyrir uppsögn

„Þessi forsendunefnd hefur það hlutverk að koma þarna inn og ræða þá þætti sem aðilar eru ósammála um. Og þá reyna til hlítar að komast að sameiginlegri niðurstöðu,“ útskýrir Inga. 

Forsenduákvæði yrði í fyrsta lagi hægt að virkja 1. mars 2027 en forsendunefnd gerir kennurum erfiðara um vik að segja upp samningnum og þarf ákveðið ferli að eiga sér stað áður en það er mögulegt.

„Áður en menn segja upp þá tekur við ferli til að reyna að leysa úr deilumálum eða vandamálum sem standa í vegi fyrir því að menn vilji vera áfram í þessu. Þannig þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur.“

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitafélaga.
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitafélaga. mbl.is/Hákon Pálsson

Eiga eftir að takast á um mörg mál

Inga segir einhug hafa verið um það hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að samþykkja tillöguna með þessari tilteknu breytingu. Þá skipti ákvæði um endurskoðun, sem var þegar inni í samningnum einnig miklu máli.

„Það var inni ákvæði um að ef vinnan gengur ekki af einhverjum orsökum eða ef tafir verða á vinnu, þá má fresta endurskoðun á niðurstöðunum um þrjá til sex mánuði, sem er mjög jákvætt. Og svo þessi forsendunefnd sem hjálpar okkur að fara yfir þetta,“ segir Inga.

„Þessi vinna sem er framundan, þessi virðismatsvegferð, bæði það að gera virðismat fyrir kennara og líka þessi mikla vinna við samræmingu kjarasamninganna. Það er auðvitað fullt af málefnum þar sem við eigum eftir að takast á um og leysa. Þess vegna er mjög gott að hafa aðstoð ef þarf. Svo er ríkissáttasemjari okkur alltaf innan handar.“

Fá 8 prósent hækkun strax

Kjarasamningurinn er í raun til fjögurra ára, og gildir eins og áður sagði út mars 2028, en fyrsti hluti samningsins hefur þegar verið gerður upp.

Einnig hefur verið gert bráðabirgðamat á störfum kennara, sem skilar þeim 8 prósent innáborgun strax inn á virðismatið sem á eftir að fara fram.

„Við erum búin að meta algengustu störf kennara og á því bráðabirgðamati er þessi prósenta byggð. Svo þegar matið liggur fyrir þá dragast þessi 8 prósent frá niðurstöðunni. Þá eru menn búnir að fá það borgað,“ útskýrir Inga.

„Það er líka þannig að ef menn eru með ákveðnar yfirborganir í dag, þá lækka þessi 8 prósent líka. Þá dregst það frá strax. Þannig þetta verða alls ekki 8 prósent fyrir alla,“ bætir hún við.

Niðurstaða úr virðismati gæti að sjálfsögðu skilað einstökum starfsheitum en meiri hækkunum og segir Inga gert ráð fyrir því. Vísar hún til grunn- og leikskólakennara í því samhengi. 

„Þá verður það gert upp þegar það liggur fyrir. Markmiðið er að leiðrétta laun kennara og koma þeim á réttan stað í okkar launahúsi hjá sveitarfélögunum. Síðan höfum við möguleika til að bera laun þeirra saman við laun á almennum markaði, þegar við erum búin að meta þeirra laun eftir okkar matskerfi.“

Allir fengið leiðréttingar og nú komið að kennurum

Nýir kjarasamningar munu skila kennurum meiri hækkunum en öðrum, en almennar launahækkanir hafa verið um 14 til 15 prósent á samningstímanum. Inga óttast þó ekki þessi niðurstaða valdi óróa hjá öðrum viðsemjendum sveitarfélaganna, enda þekki þeir ferlið.

„Kennarar eru síðasti stóri hópurinn sem fer inn í þetta virðismat. Það eru allir búnir að fara í gegnum þetta ferli og fá sínar leiðréttingar á einhverjum tímapunkti. Nú er bara komið að kennurum að setja þá á réttan stað, að þeir fái sínar leiðréttingar.“

Inga segir alla gera sér grein fyrir því að kjarasamningar kennara verði kostnaðarsamir fyrir sveitarfélögin, en um sé að ræða leiðréttingar sem hafi staðið til í langan tíma.

„Það hefur staðið lengi til að koma þessum leiðréttingum til þeirra og nú er tækifæri til þess. Það hefur verið stefna lengi að fá þá inn í virðismatið, á sömu mælistiku og aðrir okkar starfsmenn. Auðvitað er það átak og auðvitað kostar það, við vitum það öll. En við erum að vinna samkvæmt stefnu sveitarfélaganna í þessu og erum að ná árangri þar núna, sem við erum mjög ánægð með. Ég veit að það mun líka verða gott fyrir kennara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert