Taka undir gagnrýni á biðlaun Ragnars

Fimm meðlimir stjórnar og einn varamaður reyndu eftir fremsta megni …
Fimm meðlimir stjórnar og einn varamaður reyndu eftir fremsta megni að koma í veg fyrir aukafund til að upplýsa alla stjórnarmeðlimi um stöðu mála. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hluti stjórnar VR tekur undir gagnrýni á að fyrrum formaður þiggi samtímis laun frá Alþingi og VR, sérstaklega þar sem hann hefur verið gagnrýninn á aðra einstaklinga sem hafa þegið biðlaun, að því er fram kemur í tilkynningu.

Stjórn VR hefur ekki völd til að slíta gildandi samningum enda er það almennt grundvallaratriði innan verkalýðshreyfingarinnar að samningar skuli standa. Stjórnin hefur þó tekið ákvörðun um að í framtíðinni falli biðlaunaréttindi fráfarandi formanna niður ef þeir hverfa til annarra starfa.

Reynt að koma í veg fyrir fund stjórnarinnar

Í tilkynningunni segir að formenn VR hafi almennt notið réttinda til biðlauna en síðustu tvo áratugi hafi þeir formenn sem látið hafi af störfum misst embætti sitt í kosningum.

Er það því einsdæmi að formaður segi starfi sínu lausu til að taka við öðru launuðu starfi og hafi réttindi til biðlauna ekki verið hugsuð fyrir slík tilfelli.

Hins vegar hafi enginn fyrirvari verið í ráðningasamningi við Ragnar Þór Jónsson, sem var formaður frá árinu 2017, ekki frekar en í samningum við fyrri formenn.

Hann hafi óskað eftir eingreiðslu á útistandandi biðlaunum í janúar og fengið hana um síðustu mánaðamót.

Í tilkynningunni segir einnig að málið hafi ekki verið tekið fyrir af stjórn VR en þegar nokkrir stjórnarmeðlimir komust að því í síðustu viku – að fyrrum formaður hefði fengið greitt út 6 mánaða biðlaun í eingreiðslu síðustu mánaðamót – var óskað eftir auka stjórnarfundi um leið.

Fram kemur einnig að fimm meðlimir stjórnar og einn varamaður hafi reynt eftir fremsta megni að koma í veg fyrir þann fund.

Fundurinn hafi engu að síður farið fram – líkt og lög félagsins kveða á um – þann 24. febrúar, þar sem stjórnin öll fékk upplýsingar um málið.

Eftirfarandi undirrituðu fréttatilkynninguna:

Diljá Ámundadóttir Zoega, Gabríel Benjamin, Jennifer Schröder, Kristjana Þorbjörg Jónsdóttir, Ólafur Reimar Gunnarsson, Sigríður Lovísa Jónsdóttir, Svanhildur Ólöf Þórsteinsdóttir, Vala Ólöf Kristinsdóttir og Þórir Hilmarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert