„Þá er tómt mál að tala um lífskjarasókn“

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir verða að gera …
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir verða að gera kröfum um að launstefnu sem samið er um á almennum vinnumarkaði sé fylgt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur áhyggjur því hvort innistæða sé fyrir þeim launahækkunum sem nýr kjarasamningur kennara felur í sér. Hún veltir því jafnframt fyrir sér hver á þá að borga.

Þá vonast Sigríður til að samið hafið verið um einhverjar breytingar á vinnufyrirkomulagi og kjörum kennara, sem komi til móts við þær launahækkanir sem þeir fái umfram aðra.

„Frá okkar bæjardyrum séð þá vitum við það að ef við ætlum að halda í verðstöðugleika þá verðum við að gæta þess að halda okkur við að hækka laun í takti við það sem er innistæða fyrir. 

Svigrúm til launahækkana 3,5 til 4 prósent

Nýr kjarasamningur kennara við ríki og sveitarfélög til fjögurra ára var undirritaður í gær, en hann á þó eftir að fara í atkvæðagreiðslu meðal félagsfólks Kennarasambands Íslands. Samningurinn felur í sér um 24 prósent launahækkanir á samningstímanum.

Eru það töluvert meiri launahækkanir en svigrúm er til, að sögn Sigríðar. Hún bendir jafnframt á að síðustu kjarasamningar hafi verið gerðir í mjög breiðri sátt og að nú séu langflestir hópar búnir að semja

„Svigrúmið til launahækkana, sem samræmist verðstöðugleika, er á bilinu 3,5 til 4 prósent. Það er í þeim anda sem við gerðum stöðugleikasamningana á síðasta ári. Þar var kostnaðarmat fyrir atvinnulífið í heild sinni í kringum 4 prósent á ári í fjögur ár.“

Opinberir launagreiðendur hætti að leiða kjaraþróun

Sigríður segir vert að hafa í huga að SA geri þá kröfu að fyrirtæki innan vébanda samtakanna fylgi gerðum kjarasamningum. Eru fyrirtæki hvött til að halda aftur af launaskriði og vera samtaka um verðstöðugleika.

„Við verðum þess vegna að gera þá kröfu að þeirri launastefnu sem samið er um á almennum vinnumarkaði henni sé fylgt. Og að opinberir launagreiðendur hætti að leiða kjaraþróun í landinu.“

Þá segir hún verða að meta sérréttindi opinberra starfsmanna til launa þegar verið sé að gera kjarasamninga

„Ef okkur tekst ekki að gera þetta þá er tómt mál að tala um lífskjarasókn, efnhagslegan stöðugleika, minni verðbólgu og lægri vexti.“

Laun annar stærsti kostnaðarliðurinn

Sigríður bendir á að þegar horft sé til útgjalda ríkisins, séu þau flokkuð með hagrænum hætti, séu tveir stærstu kostnaðarliðirnir annars vegar laun og hins vegar framlög til almannatrygginga.

„Nú liggur fyrir frumvarp um breytingar á örorku- og ellilífeyri taki mið af launavísitölu. Það að fara langt fram úr því sem er innistæða fyrir mun hafa áhrif á kostnað ríkisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert