Allt bendir nú til þess að hið svokallaða byrlunarmál muni hljóta umfjöllun á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Málið komst í hámæli á ný eftir að Páll Steingrímsson skipstjóri mætti í ítarlegt viðtal á vettvangi Spursmála 7. febrúar síðastliðinn. Í kjölfarið hefur Morgunblaðið fjallað um ýmsa anga þess í fréttaskýringum sem birtar hafa verið á undanförnum dögum.
Hér að neðan getur að líta tímalínu sem blaðið hefur tekið saman og varðar helstu atburði sem tengjast málinu. Í flestum tilvikum byggjast upplýsingarnar á opinberum gögnum frá opinberum rannsakendum.
Apríl
Starfsmenn RÚV virkja símanúmerið 680-2140, en það er nauðalíkt símanúmeri Páls sem er 680-2141.
24. apríl
Eiginkona Páls Steingrímssonar leysir út svefnlyfið Imovane sem hann hafði útvegað henni lyfseðil fyrir.
29. apríl
Páll Steingrímsson skipstjóri kemur í land af Bergi VE og tekur gistingu á Hótel Óðinsvéum. Eiginkona hans vitjar hans og býður honum drykk. Hann þiggur ekki drykkinn og flýtir för til Akureyrar.
30. apríl
Aðalsteinn Kjartansson hættir á RÚV og flytur sig yfir á Stundina.
2. maí
Seint um kvöld þiggur Páll bjór úr hendi konu sinnar. Finnst bragðið skrítið og hefur orð á því að það sé rammt.
3. maí
Tvö um nóttina vaknar Páll mikið veikur. Kemst við illan leik yfir til nágranna sinna og hnígur þar niður. Lætur viðstadda, meðal annars sjúkraflutningamenn, vita að hann telji að sér hafi verið byrluð ólyfjan. Fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri og lendir þar nokkrum sinnum í hjartastoppi.
Læknar berjast við að halda honum á lífi og gefa honum meðal annars móteitur við mögulegri eitrun af völdum zópíklóns, virka efnisins í Imovane.
4. maí
Páll er fluttur á sjúkrahús í Reykjavík. Dætur hans og þáverandi tengdamóðir mæta á flugvöllinn fyrir norðan og er sagt að kveðja Pál. Mjög tvísýnt sé um líf hans.
5. maí
Eiginkona Páls afhendir Þóru Arnórsdóttur og Arnari Þórissyni við þriðja mann farsíma Páls og segir þeim að í símanum séu gögn sem eigi ríkt erindi við almenning.
6. maí
Páll kemst til meðvitundar eftir að hafa legið í öndunarvél frá því að veikindin herjuðu á hann. Sér á Samsung-aðgangi að farsími hans er staðsettur í Efstaleiti 1, þar sem höfuðstöðvar RÚV eru.
Eiginkonan sækir símann að nýju í Efstaleiti og kemur honum til Páls ásamt öðrum persónulegum eigum hans.
11. maí
Páll útskrifast af Landspítala og fer með flugi norður til Akureyrar.
12. maí
Páll skoðar símtæki sitt og sér merki þess að það hafi verið afritað.
14. maí
Páll fer til lögreglu og kærir meinta afritun til lögreglu en getur ekki gefið nánari lýsingu á því hver hafi verið þar að verki.
20. maí
Páll gefur skýrslu hjá lögreglunni á Akureyri.
Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni og Þórður Snær Júlíusson á Kjarnanum hafa samband með tíu mínútna millibili og bera væntanlega frétt undir Pál. Byggðist sú umfjöllun á gögnum sem áttu það öll sammerkt að vera vistuð á farsíma hans.
21. maí
Kjarninn og Stundin birta fyrstu fréttir af hinni svokölluðu „Skæruliðadeild Samherja“.
Páll fer aftur til lögreglunnar og kærir eiginkonu sína til lögreglu og vísar á blaðamennina tvo.
24. ágúst
Þóra Arnórsdóttir á í sms-samskiptum við eiginkonu Páls. Þær finna tíma til að mæla sér mót. Eiginkonan er á sama tíma í samskiptum við símanúmerið 680-2140 og er það merkt ÞAK í símaskrá hennar. Af samskiptunum að dæma er Þóra Arnórsdóttir í Kveik einnig hinum megin línunnar þar.
Þennan dag undirbúa þær einnig að koma síma eiginkonu Páls í hendur „huldumanns“ á vegum RÚV, sem fékk það verkefni að skoða rafræn fótspor í síma hennar, kanna meðal annars mögulegt innbrot í hann og fleira.
25. ágúst
Þóra og eiginkonan hittast á kaffihúsinu Yndisauka í Efstaleiti. Hafði Þóra beðið konuna um að skila sér hvítum Nokia-síma og hleðslusnúru sem hún hafði látið hana hafa.
3. september
Þóra Arnórsdóttir segist í sms-skilaboðum ætla að hitta eiginkonuna „eftir helgi“.
15. september
Réttarlæknisfræðileg matsgerð gefin út að beiðni lögreglu. Blóðprufur sýndu ekki merki eitrunar en ekki var skimað fyrir zópíklóni á meðan veikindi Páls gengu yfir. Niðurstaðan að ekki væri hægt að komast að niðurstöðu um hvað olli veikindunum. Ekki væri útilokað að sjúklingurinn hefði innbyrt efni/lyf sem ekki var skimað fyrir á sjúkrahúsinu.
3. október
Eiginkona Páls sendir Láru V. Júlíusdóttur lögmanni sínum póst og gefur þar Þóru Arnórsdóttur og Aðalsteini Kjartanssyni umboð til þess að fá símkort úr hennar eigu, og aðgang að öllum gögnum sem hana varða og eru í vörslu lögmannsins.
5. október
Eiginkonan hringir í Þóru Arnórsdóttur og varir símtalið milli þeirra í 6:46 mínútur.
6. október
Eiginkonan mætir til yfirheyrslu hjá lögreglu. Viðurkennir þar að hafa byrlað Páli svefnlyf í bjór. Segist hafa gert það eftir að hafa komist í ósæmilegt myndefni sem sýndi Pál með annarri konu. Hún hafi snöggreiðst og eitrað fyrir honum. Viðurkennir einnig að hafa afhent fjölmiðlum símann en tilgreinir ekki hvar eða hverjum.
6. nóvember
Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri RÚV segir upp störfum. Hafði þekkt eiginkonu Páls í áratugi, æft með henni handbolta og starfað með henni hjá Útgerðarfélagi Akureyringa.
22. nóvember
Páll gefur skýrslu að nýju hjá lögreglu. Upplýsir þar að eiginkona sín hafi sagt sér á liðnu sumri að hún hefði afhent starfsfólki RÚV símann.
5. janúar
Eiginkona Páls mætir til yfirheyrslu. Tjáir sig ekki um efnisatriði máls og upplýsir ekki hverjum hún afhenti símann.
13. janúar
Helgi Seljan hættir á Ríkisútvarpinu og hefur störf á Stundinni sem „rannsóknarritstjóri“.
14. febrúar
Ríkisútvarpið greinir frá því að „þrír rannsóknarblaðamenn“ hafi verið kallaðir til yfirheyrslu hjá lögreglu vegna umfjöllunar um hina meintu skæruliðadeild. Það voru blaðamennirnir Aðalsteinn Kjartansson, Arnar Þór Ingólfsson og Þórður Snær Júlíusson. Síðar um kvöldið greinir RÚV frá því að Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks hafi einnig verið kölluð til skýrslutöku. Þau hafi öll réttarstöðu sakbornings í málinu.
Formaður Blaðamannafélagsins fordæmir „afskipti lögreglu af rannsóknarblaðamönnunum og segir þau óskiljanleg og óverjandi“, eins og RÚV orðar það í frétt. „Hún segir það ljóst að í málinu hafi almannahagsmunir vegið þyngra en friðhelgi einkalífs,“ segir þar enn fremur.
20. febrúar
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Heiðar Örn Sigurfinnsson, nýr fréttastjóri RÚV, senda frá sér yfirlýsingu og segja meðal annars: „Forsenda fyrir því að fjölmiðlar geti rækt hlutverk sitt er að þeir geti aflað upplýsinga um mál sem hafa þýðingu fyrir almenning og miðlað þeim án afskipta annarra.“ Er þar einnig ítrekað mikilvægi þess að fjölmiðlamenn geti staðið vörð um heimildarmenn sína.
11. ágúst
Skýrsla tekin af Arnari Þór Ingólfssyni. Svarar ekki efnislega og ber við vernd heimildarmanna.
29. ágúst
Þóra Arnórsdóttir gefur skýrslu. Tjáir sig ekki um sakarefni og ber við trúnaði við heimildarmann.
Aðalsteinn Kjartansson gefur skýrslu. Neitar að tjá sig en segist ekki hafa verið í neinum tengslum við eiginkonu Páls.
11. janúar
Lögregla óskar skýringa frá Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra um hver hafi verið notandi að símanúmerinu 680-2140.
17. janúar
Þriðja skýrsla tekin af Páli. Hann vitnar til samtals við fyrrverandi eiginkonu sína þar sem hún segist hafa afhent Helga Seljan símann.
6. febrúar
Þóra Arnórsdóttir hættir á RÚV. Degi síðar tilkynnt um ráðningu hennar til Landsvirkjunar.
8. mars
Lögregla óskar ítarlegri upplýsinga frá útvarpsstjóra um reikninga og gögn er varða símanúmerið 680-2140 á tímabilinu 1.4. 2021-1.9. 2021.
13. mars
Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður á Heimildinni, áður Stundinni, mætir til skýrslutöku. Neitar að tjá sig um meint tengsl við eiginkonu Páls. Ber við trúnaði við heimildarmenn.
14. mars
Þóra Arnórsdóttir í skýrslutöku hjá lögreglu öðru sinni. Neitar að sjá sig um sakarefni.
30. maí
Skýrsla tekin af Páli Steingrímssyni. Þar upplýsir hann að fyrrverandi eiginkona sín hafi tjáð sér að Arnar Þórisson aðalframleiðandi Kveiks hafi veitt símanum viðtöku.
21. júní
Ingi Freyr Vilhjálmsson ráðinn til fréttastofu RÚV og hættir á Heimildinni.
12. júlí
Fyrrverandi eiginkona Páls upplýsir að Þóra Arnórsdóttir hafi tekið við símanum ásamt Arnari Þórissyni. Hún fær m.a. að sjá mynd af honum og er viss í sinni sök. Nefnir að nýju þriðja mann sem enn hefur ekki verið upplýst hver er.
11. september
Þóra Arnórsdóttir mætir til skýrslutöku þriðja sinni. Neitar að svara spurningum lögreglu, m.a. um fundi sem hún átti með eiginkonu Páls.
Arnar Þórisson mætir til skýrslutöku. Hann neitar að hafa hitt fyrrverandi konu Páls í Efstaleiti. Neitar allri aðkomu að málinu.
26. september
Lögregla hættir rannsókn á málinu.
23. október
Páll kærir ákvörðun lögreglu til ríkissaksóknara.
8. janúar
Lögregla sendir ríkissaksóknara gögn og skýringar er varða ákvörðun þess efnis að hætta rannsókninni.
23. janúar
Ríkissaksóknari staðfestir ákvörðun lögreglu um að hætta rannsókn á þeim hluta málsins sem laut að blaðamönnunum sem málinu tengdust og einnig byrluninni. Lögreglu falið að rannsaka áfram möguleg brot fyrrverandi eiginkonu Páls gegn friðhelgi einkalífs hans.
7. febrúar
Páll Steingrímsson mætir í ítarlegt viðtal í Spursmálum og segir frá sinni hlið málsins.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri hafnar því að mæta í viðtal í Spursmálum og ber við að hann hafi engar forsendur til að tjá sig um málið.
10. febrúar
Heiðar Örn Sigurfinnsson hafnar boði um viðtal á vettvangi Spursmála. Segist ekki hafa forsendur til að tjá sig um málið. Hafði þó gert það á Facebook þremur dögum fyrr.
20. febrúar
Logi Einarsson menningarmálaráðherra segist munu fara yfir hlut RÚV í byrlunarmálinu svokallaða.
21. febrúar
Stefán Eiríksson hafnar öðru sinni boði í viðtal á vettvangi Spursmála.
24. febrúar
Eva Hauksdóttir lögmaður Páls sendir bréf til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og óskar atbeina hennar til að rannsaka málið, einkum hlut RÚV og starfsmanna þess í því.