Það kom Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) að óvörum er Efling sagði upp kjarasamningum félagsmanna sem vinna á hjúkrunarheimilum í dag.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum sem undir kvittar Sigurjón Norberg Kjærnested, framkvæmdastjóri SFV.
„Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu harma þá óvissu sem upp er komin í kjölfar uppsagnar Eflingar á kjarasamningi sem gerður var þann 2. október síðastliðinn. Vinna um mönnun á hjúkrunarheimilum stendur enn yfir,“ segir í tilkynningunni.
Þá hafa heilbrigðisráðherra sem og fjármálaráðherra, samkvæmt forsendum kjarasamningsins, frest til 1. apríl til að bregðast við tillögum starfshóps sem skilað var í febrúar.
„Það kemur því SFV í opna skjöldu að samningnum sé nú sagt upp fyrirvaralaust. SFV lýsir yfir eindregnum vilja að halda áfram með og ljúka þeirri vinnu í samvinnu við alla hagsmunaaðila eins og forsendur kjarasamningsins kveða á um,“ segir í tilkynningunni.
Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tillögur hópsins hafa verið „með öllu ófullnægjandi.“