Ástráður óskaði eftir afsökunarbeiðni

Ástráður Haraldsson óskaði eftir afsökunarbeiðni frá SÍS. Málið leystist farsællega …
Ástráður Haraldsson óskaði eftir afsökunarbeiðni frá SÍS. Málið leystist farsællega að sögn hans. Samsett mynd

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari sendi Sambandi íslenskra sveitarfélaga bréf á föstudag þar sem hann óskaði eftir afsökunarbeiðni á harðorðri yfirlýsingu stjórnar sambandsins.

Í henni sagði að það hefði verið skýrt í huga stjórnar að innanhússtillaga Ástráðs yrði ekki samþykkt hjá stjórninni og að hún hefði verið lögð fram án hennar samþykkis og án samþykkis samninganefndar.

Einhver misbrestur virðist hafa orðið í þeim samskiptum og eins og mbl.is greindi frá á föstudag var formaður samninganefndar, Inga Rún Þórðardóttir, meðvituð um að tillagan yrði lögð fram þó að hún hefði komið því á framfæri að hún yrði ólíklega samþykkt af hálfu stjórnar.

Bókuðu um traust til ríkissáttasemjara 

Stjórn SÍS, Ástráður Haraldsson og Bára Hildur Jóhannsdóttir frá ríkissáttasemjara funduðu svo á vettvangi SÍS á mánudagsmorgun þar sem þessi mál voru rædd. Úr varð að gerð var bókun á fundinum þar sem ítrekað var traust til ríkissáttasemjara.

„Þá ítrekar stjórn Sambandsins traust sitt til ríkissáttasemjara og samninganefndar sveitarfélaga og umboð hennar til áframhaldandi samningaviðræðna fyrir hönd sveitarfélaganna,“ segir í bókuninni.

Málið leyst 

Ástráður segir að málið hafi fengið farsæla lausn en á tímabili hafi blasað við að trúnaðarbrestur hafi orðið á milli ríkissáttasemjara og SÍS. 

„Ég átti í samskiptum helgina eftir yfirlýsingu SÍS og átti svo fund með þeim um mánudagsmorguninn. Í kjölfar þess var gerð bókun þar sem fullu trausti var lýst á ríkissáttasemjara. Ég er ánægður með að leyst hafi úr þeim misskilningi sem kann að hafa orðið á milli mín og þeirra,“ segir Ástráður. 

Komið í ljós 

Hann segir að mönnum hafi orðið heitt í hamsi í kjaradeilunni í síðustu viku en málið sé að sínu vitu upp gert en kennarar skrifuðu undir nýjan kjarasamning í fyrrakvöld.

Að sögn hans fólst misskilningurinn í því að tillagan hefði verið sett fram án samþykkis SÍS en það hafi legið fyrir að formaður samninganefndar sveitarfélaganna hafi hins vegar verið meðvitaður um að tillagan yrði fram sett.

„Það hefur smám saman komið í ljós að svo var.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert