Fiskikónginn langar í pólitíkina

„Ég bara veit ekki hvar ég á að byrja en ég væri alveg til í að fara í pólitík,“ upplýsir Kristján Berg í Dagmálum. Spurningin kom til hans eftir að hann var búinn að tjá sig um fjölmörg og ólík samfélagsmál.

Kristján segir að hans lögheimili yrði alltaf Sjálfstæðislokkurinn. Hann reyndar gagnrýnir flokkinn í þættinum og telur hann ekki standa undir því að vera hægri flokkur. Alltof mikið miðjumoð þar í gangi, telur hann. Kristján hefur alla tíð kosið Sjálfstæðisflokkinn en gerði það ekki í síðustu alþingiskosningum. Þá stökk hann af lestinni og kaus Miðflokkinn. Segist reyndar sjá eftir því nú.

En þú segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki nægilega mikið til hægri fyrir þig?

„Ég get breytt því.“ Hann hlær.

Stjórnmál hafa mikið verið rædd á heimilinu viðurkennir Kristján. „Ég er ekkert góður í þessum pólitísku frösum og því sem þarf til þess. En ég held að pólitík sé að reka íslenska ríkið og það er plús og mínus. Svo þarf að hugsa vel um þá sem minna mega sín og barnafjölskyldur og annað. Ég held að ég sé alveg maður í það.“

„Ég bíð bara eftir símtali“

Hann viðurkennir að hann hafi verið með þessa hugmynd í höfðinu lengi. Hins vegar má heyra á honum að þetta togar í hann. Hann er flokksbundinn sjálfstæðismaður í Garðabæ en hefur ekki sóst eftir að komast á landsfund flokksins sem haldinn verður um helgina.

Kristján fékk símtal frá Framsóknarflokkinum í tengslum við þennan áhuga. Þá gat hann ekki svarað og segir það engan skaða. Hann eigi ekki samleið með þeim flokki.

Þegar gengið er á hann viðurkennir hann að hann viti ekki hvernig hann á að bera sig að við að nálgast viðfangsefnið. „Ég veit ekki einu sinni hvert ég ætti að fara til að fara á fund,“ hlær hann. „Ég bíð bara eftir símtali.“

Hann liggur ekki á skoðunum sínum. Telur flokkana á Íslandi allt of marga og horfir til fimm prósenta marksins um að flokkar nái manni inn á þing. Hann telur það allt of lágt. Vill fara með það í tíu prósent. Þegar kemur að reglunni með að 2,5 prósenta fylgi tryggi stjórnmálaflokki styrki úr ríkissjóði telur hann það alveg galið.

Með fréttinni fylgir brot þar sem Fiskikóngurinn ræðir hugmyndina að fara í stjórnmál. Þáttinn í heild sinni geta áskrifendur horft á með því að smella á hlekkinn hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert