Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra ítrekaði mikilvægi þess að Ísland efldi enn frekar samstarf við bandalagsríki og styrkti eigin getu til að tryggja stöðuvitund, öryggi, varnir og áfallaþol sitt í opnunarávarpi á málþingi um öryggismál í gær.
Málþingið var á vegum Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, og unnið í samstarfi við utanríkisráðuneytið.
„Það dylst engum að við stöndum á krossgötum, hvað varðar öryggismál Evrópu og þá um leið í okkar eigin öryggis- og varnarmálum,“ sagði Þorgerður Katrín.
„Grunnstoðirnar í vörnum landsins eru að mínu mati óbreyttar, en krefjast aukinnar virkni og ræktarsemi. Þar skipta aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin mestu máli. Landfræðileg lega Íslands fyrir öryggi- og varnir Norður-Ameríku og Evrópu vegur hér þungt. Það þýðir þó ekki að við getum alfarið treyst á aðra. Það er ekki valkostur. Við viljum hafa áhrif á okkar stöðu með virkri þátttöku og samstarfi,“ sagði Þorgerður.
Í ávarpi sínu áréttaði utanríkisráðherra mikilvægi áframhaldandi stuðnings við varnarbaráttu Úkraínu og samstöðu vestrænna ríkja. Ísland yrði áfram málsvari alþjóðalaga, mannréttinda og lýðræðis.
Þá tók Þorgerður Katrín þátt í pallborðsumræðum ásamt tveimur fyrrverandi utanríkisráðherrum, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, þar sem breytt öryggislandslag og þörfin á uppbyggingu innviða, þekkingar og getu á sviði öryggis- og varnarmála á Íslandi var til umræðu.
Málþinginu var streymt og upptöku má finna á vef Varðbergs.