Jón Gunnarsson alþingismaður og fyrrum dómsmálaráðherra sakar Guðrúnu Hafsteinsdóttur, eftirmann sinn í ráðherraembætti um að eigna sér árangur forvera sinna. Gagnrýnin birtist á viðkvæmum tímapunkti.
Á morgun verður 45. landsfundur Sjálfstæðisflokksins settur í Laugardalshöll en á þriðja degi fundarins munu yfir 2000 fundarmenn greiða atkvæði um það hvort Guðrún eða Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem einnig er fyrrum dómsmálaráðherra, verði næsti formaður flokksins.
Í færslu sem Jón skrifaði og birti á Facebook fyrr í kvöld vísar hann í færslu Guðrúnar sem aftur vísar í ummæli sem hún lét falla í viðtali á vettvangi Spursmála síðastliðinn föstudag.
Þar sagði Guðrún meðal annars:
„Ég kom inn í þetta ráðuneyti með það að augnamiði að ná stjórn á þessum málaflokki og hvað gerðist? Á síðasta ári fækkaði umsóknum um vernd á Íslandi um 55 prósent, brottflutningur frá landinu jókst um 70 prósent. Það er árangur að geta keyrt í gegn breytingar á útlendingalögum sem engum öðrum hafi tekist fyrr en að ég geri það, en það sem er mest um vert að ég náði líka í gegnum þessa ómögulegu ríkisstjórn að gera breytingar á lögreglulögum, nauðsynlegar breytingar sem Björn Bjarnason lagði fyrst fram 2007. Það er líka árangur.“
Þarna segir Jón Guðrúnu ekki fara með rétt mál.
„Mér þykir í raun miður að skrifa hér á þessum vettvangi um þessi mál, en ekki er undan því komist að gera athugasemd við málflutning Guðrúnar Hafsteinsdóttur í þessari klippu sem hún deilir hér með opinberlega í aðdraganda formannskosninga í Sjálfstæðisflokknum. Hún hefur haldið því fram að ekkert hafi gerst í útlendingamálunum fyrr en hún steig inn í dómsmálaráðuneytið,“ skrifar Jón.
Hann segist auk þess hafa reynt að ná sambandi við Guðrúnu en að hún hafi í engu svarað tölvupóstum frá honum.
„Guðrún hefur í engu svarað persónulegum pósti mínum til hennar um þetta mál. Hún væri meiri manneskja með því að leiðrétta þetta með einhverjum hætti sjálf.“
Og virðist þetta svörunarleysi valda því að Jón stígur fram og gerir þetta að umtalsefni á Facebook.
„Mér þykir miður að Guðrún Hafsteinsdóttir velji fremur þann kost að slá sig til riddara en að halda til haga því sem rétt er og sé mig nauðbeygðan til að birta þessa færslu þar sem hún hefur hunsað persónuleg skilaboð mín til hennar vegna þessa.“
Og virðist færsla Jóns einnig sett fram í samhengi við formannskjörið og það verkefni Sjálfstæðismanna um komandi helgi að velja sér nýjan leiðtoga þegar Bjarni Benediktsson stígur af hinu pólitíska sviði.
„Góður leiðtogi hvetur samverkamenn, styður þá til góðra verka og gefur þeim svigrúm til að njóta þess sem vel er gert. Þannig verður til öflug liðsheild þar sem hver og einn fær að njóta sín. Öflugur leiðtogi eignar sér ekki árangur annarra eða gerir lítið úr þeim sem á undan komu.“
Segir Jón staðreyndirnar liggja fyrir um þann árangur sem náðst hefur í útlendingamálum og að þar sé að baki samhent átak margra, ekki síst fyrirrennara hennar á ráðherrastóli.
„Grunnur að árangri í útlendingamálum var lagður í sameiginlegu átaki þeirra sem á undan Guðrúnu voru í dómsmálaráðuneytinu og þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Þetta þekki ég vel eftir að hafa setið í stóli dómsmálaráðherra, þar sem ég talaði afdráttarlaust gegn þeirri stöðu sem þá var uppi í útlendingamálum. Umsóknum fjölgaði í veldisvexti með tilheyrandi áhrifum á íslenskt samfélag, álagi á innviði og kostnaði.“
Bendir Jón á að torvelt hafi verið að ná fram breytingum á þessum málaflokki, en það hafi skýrst af afstöðu samstarfsflokkanna á þingi.
„Ráðherrar flokksins sem á undan mér komu höfðu allir gert ítrekaðar tilraunir til breytinga á útlendingalögum og lagt drög á þeim breytingum sem síðan náðust í gegn.
Það gustar oft um þá sem fara gegn straumnum og það var lýsandi fyrir tíma minn í ráðuneytinu. Árið 2023 náðum við Sjálfstæðismenn í gegn fyrstu breytingum á útlendingalögum; mál voru afgreidd hraðar, spornað var við misnotkun verndarkerfisins, skerpt á heimildum til skerðingar og niðurfellingar þjónustu til þeirra sem voru hér í ólögmætri dvöl,“ segir Jón.
Viðtalið við Guðrúnu í Spursmálum, sem Jón vísar til er aðgengilegt í heild sinni í spilaranum hér að neðan: