Neyðarfundur starfsfólks og foreldra Hjallastefnunnar í Reykjavík um framtíð skólans fór fram í kvöld og mikil samstaða ríkti meðal foreldra.
Að sögn Kristínar Kolbeinsdóttur, foreldri barns í skólanum, hefur nýr meirihluti í borginni sagst vilja standa með skólanum, en slíku hefur verið lofað áður og lítið verið um svör eða raunverulegar lausnir á húsnæðisvanda skólans í borginni.
Bæði barnaskólinn í Reykjavík og leikskólinn Askja hafa nú verið í bráðabirgðarhúsnæði í þónokkurn tíma.
Á fundinum var foreldrum gert ljóst að staðan væri orðin alvarleg. Barnaskólabörnin komi alltaf til með að geta fengið pláss í hverfisskólanum sínum en leikskólabörnin fari á biðlista þannig að það liggi meira á að sækja um flutning fyrir þau.
Voru foreldrar þá hvattir til að sækja um flutning fyrir leikskólabörn, í von um að vera örugg með leikskólapláss.
Þannig að þetta var meira upplýsingafundur en einhver niðurstaða?
„Já, og í rauninni þurfti bara að upplýsa foreldra af því að það er þarna frestur til 3. mars að sækja um leikskólapláss, áður en þeim er úthlutað.
En svo var einhver „akút“ fundur hjá meirihlutanum út af þessu máli og þau töluðu um að þau vilji styðja við okkur, en þau hafa gert það mjög oft áður, og eru búin að gera það alveg síðasta ár.“
Hún segir þó mikla samstöðu hafa verið meðal foreldra á fundinum til að reyna að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að halda skólastarfinu gangandi.
Foreldrar hafi til að mynda talað um að reyna að halda samstöðu í gegnum foreldrafélagið og skrifa oddvitum meirihlutans sameiginlegt bréf.