Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir ástæðuna fyrir uppsögn kjarasamninga vegna félagsmanna sem vinna á hjúkrunarheimilum vera að niðurstaða hóps sem skipaður var til þess að útbúa tillögur er varða mönnun á heimilunum hafi verið ófullnægjandi. Tilviljun sé að kjarasamningunum sé sagt upp um leið og kennarar undirrita nýja samninga.
Þetta segir Sólveig í samtali við mbl.is.
„Samningurinn sem við gerðum við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu í október á síðasta ári - hann hverfðist um það að árangur næðist í vinnu við það að bæta þær aðstæður sem ríkja inni á hjúkrunarheimilunum og eru tilkomnar vegna ónógrar mönnunar,“ segir Sólveig og heldur áfram:
„Bæði er of lítið af starfsfólki enn við störf og svo er vöntun á faglærðu starfsfólki sem auðvitað leiðir til þess að Eflingarfélagar, sem eru að stærstum meirihluta konur, eru í raun farnar að axla ábyrgð sem ætti með réttu að vera á herðum faglærðra einstaklinga eins og t.d. hjúkrunarfræðinga.“
Hún segir félagsmenn hafa fylgt í gegnum kröfugerð og viðræðurnar þeirri launasetningu sem þeir sjálfir höfðu útbúið og samþykkt á almennum vinnumarkaði.
„En því miður er staðan núna sú að hópurinn sem skipaður var til þess að fara yfir og útbúa tillögur sem varða mönnun – niðurstaða hans og sú afurð sem sá hópur skilaði er með öllu ófullnægjandi.“
Uppsagnarákvæði er í samningnum þar sem m.a. segir að sé niðurstaðan ófullnægjandi sé hægt að segja upp samningunum. Einnig var þar að finna ákvæði um að hægt væri að endurskoða samningana 1. apríl en segir Sólveig að Efling hafi ekki séð ástæðu til þess að bíða. Uppsögnin mun svo taka gildi þann 1. maí.
„Þetta var þannig að við getum í rauninni sagt samningnum formlega upp 1. apríl og þá er hann fallinn úr gildi 1. maí en við bara ákváðum að tilkynna um þessa niðurstöðu núna.“
Hún segir að nú þegar búið sé að tilkynna viðsemjendum og embætti ríkissáttasemjara um niðurstöðuna standi því ekkert til fyrirstöðu að viðræður hefjist samstundis.
Hver eru svo næstu skref?
„Á fundinum sem við áttum áðan fórum við yfir afstöðu okkar. Við tilkynntum jafnframt um það að kröfugerðin sem við studdumst við í gegnum kjarasamningsviðræðurnar – að hún héldi en þó með þeim fyrirvara að nú virðist vera sem svo að ný launastefna hafi verið mótuð í samningum opinberra aðila við kennara þannig við munum að sjálfsögðu rýna niðurstöðu þeirra samninga mjög vel,“ segir Sólveig og heldur áfram:
„Þær manneskjur sem við erum að gera kjarasamninga fyrir eru auðvitað í meirihluta konur í sögulega vanmetnum kvennastörfum og ómissandi vinnuafl á íslenskum vinnumarkaði. Þannig að ef það er svo að verið sé að færa vissum hópum umframhækkanir vegna einhvers konar sérstöðu í samfélaginu þá er þarna svo sannarlega hópur sem er í vissri sérstöðu og algjörlega ómissandi á mjög lágum launum að vinna mjög erfið störf. Þannig að við munum kynna okkur mjög vel niðurstöðurnar úr samningunum við kennarana.“
Þannig að það hafði áhrif að kennarar hafi samið?
„Nei, það hafði ekki áhrif. Það er í raun bara tilviljun að þessar tímalínur leggjast svona saman vegna þess að þessi hópur átti að skila niðurstöðu 1. febrúar en vinnan í honum dróst þannig niðurstaðan kom ekki fyrr en 18. febrúar og svo vorum við auðvitað hér í samninganefndinni að koma okkur saman um hvað við vildum gera þannig þetta er í raun hrein tilviljun.
En fyrst að þessi tilviljun er komin upp þá að sjálfsögðu munum við skoða hvað þetta þýðir fyrir okkur.“