Gul viðvörun mun taka gildi vestanlands á miðnætti en víðáttumikil lægð nálgast landið úr suðvestri og mun ganga í suðaustan hvassviðri eða storm.
Á vefsíðu Veðurstofu Íslands má sjá að gul viðvörun vegna veðurs verður á Vestfjörðum, Breiðafirði, Miðhálendinu, Ströndum og norðurlandi vestra.
Vindhraði verður á bilinu 15-23 metrar á sekúndu en hann gæti náð 25 metrum á sekúndu á Snæfellsnesi í nótt og í fyrramálið.
Þetta segir Katrín Agla Tómasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
„Svo fylgir þessu hlýnandi veður og rigning en það verður slydda eða snjókoma fyrst um sinn og þá einkum á Norðurlandi og Norðvesturlandi.“
Þá verður hríðaviðvörun á Vestfjörðum og norðurlandi vestra í nótt.
Katrín segir vindáttina verða suðlægari í fyrramálið. Draga muni úr vindi í fyrramálið en bætist þó aftur í og mun viðvörunin renna út eftir hádegi á morgun.
„Eftir hádegi á morgun snýst í suðvestan átt og kólnar smám saman. Það verða skúrir fyrst og svo slydduél eða él annað kvöld og hægari vindur.“