Framkvæmdastjóri verslunarinnar Prís segir að verslunin hafi mætt aðgangshindrunum á markaði á borð við hótanir annarra verslana við birgja, stöðvun framleiðslu og breyttum umbúðum svo neytendur geti ekki borið saman verðlag sömu vöru á milli verslana.
Markmið Prís er að bæta hag heimila á landinu með lækkuðu verði á matvöru. Verslunin er því áskorandi á fákeppnismarkaði Íslands og helsta einkenni fákeppnismarkaðar eru fáir seljendur.
Þetta sagði Gréta María Grétarsdóttir framkvæmdastjóri Prís, á opnum fundi Félags atvinnurekenda, sem haldinn var á Grand hóteli í dag .
Fundurinn bar yfirskriftina: Skilar samkeppnin okkur samkeppnishæfu matarverði?
Gréta nefndi nokkra þætti í erindi sínu sem hindra aðgang að markaðinum fyrir nýjar verslanir.
Staðsetningu nefndi hún sem mikla aðgangshindrun, helsta áskorun rekenda Prís hafi verið að finna staðsetningu fyrir fyrstu búðina.
Þá sagði hún það að fá framleiðendur og heildsala til að vinna með sér einnig vera hindrun, „við sitjum ekki við sama borð og risarnir tveir á markaði
Íslenskur framleiðandi hafi til að mynda sagt; „Við erum með fyrirfram skilgreint kerfi til þess að raska ekki ró á markaðnum.“
Þá hafi stór heildsali einnig sagt við hana: „Þið viljið ekkert vera að rugga þessum bát.“
Gréta sagði markaðsráðandi aðila eiga allar keðjurnar, þeir flytji sjálfir inn vörur, þeir eigi sjálfir vöruhúsin sín og þeir eigi framleiðslufyrirtækin sem að framleiða vörurnar þeirra. Sagði Gréta þetta mjög ógagnsætt.
Þá viti hún til þess að aðilar hafi hætt að selja versluninni vörur af því að þeim hafi verið hótað minna hilluplássi í samkeppnisbúðunum.
Hætt hafi einnig verið að framleiða fyrir verslunina og þau rök gefin að ekki hafi verið nægur tími til að framleiða fyrir tvo aðila.
Umbúðum varnings hafi einnig verið breytt þannig að neytendur geti ekki borið saman verðlag sömu vöru á milli verslana, „sem er ekkert nema svik við viðskiptavininn“.
Í ljósi ofantalinna hindrana við að komast inn á markaðinn spurði Gréta í erindi sínu hver staðan væri þegar tvö stór fyrirtæki ráða ríkjum, „þetta er engin samkeppni, þetta er fákeppni“.
Stórir aðilar stjórni verðlagi og hámarki hagnað sinn án þess að lenda í raunverulegum verðstríðum, það sé – og hafi lengi verið – staðan.
„Þegar framleið þeirra hækkar án þess að verð fyrir neytendur lækki, sýnir það að aukinn hagnaður er ekki að skila sér til almennings í formi lægra verðs eða betri þjónustu,“ sagði Gréta.
Í heilbrigðri samkeppni eigi að vera meiri þrýstingur sem neyði fyrirtæki til að bjóða betra verð og þjónustu, en það hafi ekki sést á markaðinum undanfarin misseri.
Þetta sagði Gréta ástæðuna fyrir því að litlir aðilar sem berjist við að komast inn á markaðinn séu mikilvægir.
„Með því að koma inn með lágan kostnað, einfalt vöruúrval og skilvirkan rekstur er hægt að brjóta upp staðnaðan markað. Það er ekki auðvelt, en þetta er ógeðslega skemmtilegt,“ sagði hún.
Verslunin sé ekki að koma inn á markaðinn til að vera með einhverja sýndarmennsku, heldur verðleggi vörurnar á raunhæfan hátt, með heilbrigðan hagnað að markmiði, „án þess að vera með einhvern ofurhagnað“.
Mat rekstraraðila sé að þegar náðst hefur sú velta sem stefnt er að megi reka fyrirtækið með heilbrigðum hagnaði.