„Við höfum verulegar áhyggjur“

Finnbogi A. Hermannsson, forseti ASÍ.
Finnbogi A. Hermannsson, forseti ASÍ. mbl.is/Karítas

Finnbjörn Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir ljóst að kostnaðurinn af nýjum samningi ríkis og sveitarfélaga við kennara sé mikill. Áhyggjur séu innan ASÍ um hvernig sveitarfélögin muni bregðast við.

Þetta segir Finnbjörn í samtali við mbl.is.

Kostnaðurinn mikill

Tekur þó forsetinn fram að hann hafi, enn sem komið er, einungis séð opinberar fréttir og þess háttar um samninginn en ekki samninginn sjálfan.

„En miðað við að þarna eru sjö kjarasamningar undir hjá kennurunum og það er mjög misjöfn staða á launamálum hjá kennurum eftir kjarasamningum þá geri ég ráð fyrir að þessu sé skipt svolítið upp eftir samningum en ég bara veit það ekki. Og svo veit maður ekkert hvað þeir eru að leggja á móti inn í þetta,“ segir Finnbjörn og heldur áfram:

„Þannig að ég get ekkert tjáð mig í sjálfu sér um samninginn sem slíkan annað en að kostnaðurinn af honum er bara töluvert mikill og við höfum verulegar áhyggjur af því hvernig sveitarfélögin ætla að bregðast við.“

Snúa þær áhyggjur t.a.m. að því hvort sveitarfélög og ríkið muni fara í útvistun starfa, þjónusta verði lakari, farið verði í einhvers konar gjaldtöku eða skattahækkanir.

„Þá fyrst fer þetta að bíta á okkar fólki.“

Einhvers staðar verður að taka peninga

Hann ítrekar þó aftur að þörf sé á frekari upplýsingum til þess að geta sagt betur um framhaldið. Eitt sé þó víst:

„Þetta kostar, það liggur alveg fyrir. Einhvers staðar verður að taka peningana og það var ekki gert ráð fyrir þessu í fjárhagsáætlun sveitarfélaganna. Þannig þetta er viðbót.

Síðan eigum við eftir að sjá hvernig þetta kemur svo til með að líta út þegar þetta fer að rjátla inn á efnahagslífið, hvort þetta hafi einhver áhrif á verðbólgu. Það vitum við náttúrulega ekki en það eru bara svo margir óljósir þættir enn þá í þessu að það er mjög erfitt að segja eitthvað um þetta,“ segir Finnbjörn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert