Gefin hefur verið út ákæra á hendur Kristjáni Markúsi Sívarssyni sem sakaður er um að hafa beitt konu hrottalegu ofbeldi í um tíu daga skeið til 10. nóvember árið 2024. Ákæran miðar að sérstaklega hættulegri líkamsárás.
Hrottalegar lýsingar eru í ákæru. Er Kristján sagður í ákæru hafa slegið konuna víðs vegar í líkama og höfuð m.a. með hleðslusnúru, hamri, járnröri og tréspýtu.
Slegið hana í andlitið með kveikjara, lagt logandi sígarettu að hálsi hennar, tekið hana hálstaki og þrengt að, stungið í líkama með sprautunálum, skorið fótleggi með hníf, stigið og traðkað á fótleggjum, sparkað víðs vegar í líkama hennar, hrækt framan í hana og skvett vatni á hana.
Voru afleiðingarnar m.a. rifbeinsbrot, brotnar tennur, mar og skurðir á líkama og höfði og opið sár á hægri ökkla.
Samhliða er Kristján sakaður um vörslu fíkniefna og vopnaburð. Þannig var hann með í fórum sínum amfetamín og kannabisefni auk skotvopns og haglabyssuskota þegar hann var hnepptur í varðhald.
Aðalmeðferð í málinu hefst á mánudag í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Í einkaréttarkröfu krefst konan sex milljóna króna í miskabætur auk 300 þúsund króna greiðslu fyrir munatjón og þjáningarbætur upp á 800 þúsund krónur.
Kristján hefur ítrekað gerst sekur um ofbeldisbrot og hefur sjö sinnum hlotið dóma fyrir slík brot, nú síðast 8. nóvember. Þá hlaut hann 16 mánaða dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur.