Í nýjasta þætti Spursmála er upp á ýmsu bryddað. Þátturinn var sýndur hér á mbl.is fyrr í dag en upptöku af honum má nálgast í spilaranum hér að ofan, á Spotify og YouTube og er hún öllum aðgengileg.
Svo virðist sem nýir kjarasamningar við kennarastéttina muni draga alvarlegan dilk á eftir sér. Risasamningar sem gerðir voru við 85% vinnumarkaðarins í fyrra gætu komist í uppnám.
Þetta má ráða af viðbrögðum aðila vinnumarkaðarins í kjölfar þess að það spurðist út að kostnaður við kennarasamningana fyrrnefndu væri metinn á allt að 24% yfir fjögurra ára tímabil. Í fyrra náðist sátt á vinnumarkaði með jafn löngum samningi sem skila átti ríflega 14% hækkun að meðaltali.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar hefur sterka skoðun á stöðunni sem komin er upp og er hún gestur Spursmála að þessu sinni. Einnig heyrist þungt hljóð í atvinnurekendum en fulltrúi þeirra, Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins mun setjast við Spursmálaborðið ásamt Sólveigu Önnu og greina stöðuna sem er í meira lagi viðkvæm.
Að því loknu mun Helgi I. Jónsson, fyrrum hæstaréttardómari ræða við Stefán Einar um framkvæmd hinnar svokölluðu samfélagsþjónustu sem verið hefur hluti af refsivörslukerfinu hér á landi allt frá árinu 1995. Segir hann alvarlegar brotalamir á kerfinu.
Þá mun Albert Jónsson, fyrrum sendiherra og alþjóðamálaráðgjafi forsætisráðherra mæta til leiks og ræða stöðuna í Úkraínudeilunni og hvað Trump hyggist fyrir í því afar viðkvæma, og eldfima máli.
Í þættinum er einnig skyggnst inn í stjórnmálastarfið í landinu eins og það birtist á samfélagsmiðlum en Spursmálateymið hefur að undanförnu tekið saman glefsur af því hvernig stjórnmálamenn og -flokkar birtast þjóðinni á hverjum tíma á Instagram, Facebook og TikTok.
Ekki missa af Spursmálum hér á mbl.is þar sem hressilegasta samfélagsumræðan á sér fastan sess alla föstudaga klukkan 14.