Landhelgisgæslan hafði í gær afskipti af íslensku skipi sem var á siglingu norðan við landið. Var skipið ekki með gilt haffærnisskírteini og grunur lék á að lögskráning skipstjórans um borð væri ekki fullnægjandi.
Þegar Landhelgisgæslan óskaði eftir því að skipið sneri til hafnar á ný höfnuðu þeir sem voru um borð að fylgja þeim fyrirmælum og var því þyrlusveit gæslunnar kölluð til og þurftu tveir stýrimenn að síga úr þyrlunni og fara um borð, en þeir létu stýra skipinu til hafnar.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni á Facebook-síðu stofnunarinnar.
Kemur þar fram að lögreglan hafi tekið á móti áhöfninni og tekið af henni skýrslu við komuna í land, en rannsókn málsins er í höndum lögreglunnar á Norðurlandi eystra.