Helgi Steinar Karlsson múrarameistari lést miðvikudaginn 26. febrúar sl., 88 ára að aldri.
Hann fæddist í Reykjavík 3. maí árið 1936. Foreldrar hans voru Guðbjörg Fanney Sigurjónsdóttir og Karl Jóhannesson.
Helgi Steinar lauk sveinsprófi í múraraiðn í Reykjavík árið 1959 og öðlaðist múrarameistararéttindi árið 1964. Hann var formaður Múrarafélags Reykjavíkur í áratugi og formaður Múrarasambands Íslands. Þá starfaði hann við byggingaeftirlit hjá mannvirkjadeild Reykjavíkurborgar síðustu ár starfsævinnar.
Helgi Steinar gegndi um ævina margvíslegum félags- og trúnaðarstörfum. Hann tók virkan þátt í kaupum og uppbyggingu á jörð Múrarafélagsins og Múrarameistarafélagsins í Öndverðarnesi frá upphafi. Þá sat hann m.a. í byggingarnefnd Reykjavíkur, stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og skólanefnd Iðnskólans. Hann tók þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins og sat um tíma í stjórn eldri sjálfstæðismanna.
Hann lagði alla tíð mikla áherslu á menntun múrara og faglega þekkingu í byggingariðnaði almennt og ekki síst mikilvægi löggildingar iðngreina.
Eftirlifandi eiginkona Helga Steinars er Bára Lárusdóttir, f. 1942. Börn þeirra eru þrjú; Bryndís, f. 1961, maki hennar er Baldur Erlingsson, Sigurbjörn, f. 1964, og Jóna Björk, f. 1970, maki hennar er Jóhann Lapas. Barnabörnin eru fimm og langafabörnin tvö.