Blað brotið í rannsóknum á sögu stjórnmálaflokkanna

Íslenskir kommúnistar höfðu meiri áhrif og ítök hér á landi en tíðkaðist með kommmúnistaflokka í nágrannalöndum okkar. Sagnfræðingurinn Skafti Ingimarsson greindi hvers vegna málum var svo farið í bókinni Nú blakta rauðir fánar.

Í viðtali í Dagmálum segist Skafti hafa verið að fást við þetta efni meira og minna frá því hann hóf sitt háskólanám og þegar kom að doktorsnáminu hóf hann að safna markvisst efni í doktorsritgerð sem hann lauk við 2018. Covid kom í veg fyrir að bókin kæmi út þá, en hún kom svo út nú stuttu fyrir síðustu jól.

Umræðan um stjórnmálasögu áranna frá því milli stríða og fram undir lok tíunda áratugarins hefur verið lífleg og oft hatrömm á síðustu árum en Skafti segist hafa lagt sig fram um það taka efnið hlutlægum tökum. Þar hafi hann ekki síst notið þess að þegar hann var í meistaranámi í Skotlandi hafi hann kynnst öðru sjónarhorni á umfjöllunarefnið en tíðkast hafði hér heima.

„Ég setti mér líka það markmið að reyna að ná saman heimildum ekki bara hérna í Reykjavík heldur hringinn í kringum landið og það tókst. Það hefur mikið af fundargerðabókum skilað sér inn á héraðsskjalasöfnin sem ég nýtti mér og einnig félagaskrár Kommúnista- og Sósíalistaflokksins, sem eru skrár sem Kjartan Ólafsson, sem var ritstjóri Þjóðviljans, varðveitti. Síðan fann ég félagaskrá fyrir Sósíalistaflokkinn frá 1960 og lagði þessar heimildir til grundvallar. Í leiðinni gerði ég lýðfræðilega rannsókn á því hvaða fólk hefði tekið þátt í flokksstarfinu og að því leyti er brotið blað í rannsóknum á sögu íslensku stjórnmálaflokkanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert