Sjór gekk langt langt inn á land og flæddi yfir bílastæðið við Reynisfjöru í dag. Eins og sjá má á myndskeiðinu hér fyrir neðan urðu ferðamenn að forða sér.
Ragnar Sigurður Indriðason, sem horfir niður á bílaplanið við Reynisfjöru frá heimili sínu Görðum, segir sjóinn hafa hrifið grjót með sér upp á bílaplanið.
Hann segir ekki óalgengt að það flæði inn á planið en það hafi þó ekki gerst áður í vetur.
„Svona hálftíma fyrir háflóð þá gekk þetta mest á,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is.
„Það flæddi yfir veginn líka, það er allt á floti hérna fyrir neðan.“
Í Facebook-færslu Lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að Reynisfjara verði lokuð til klukkan 11.00 á morgun.
Slæm veðurskilyrði og stórstreymi valdi því að sjór gangi langt inn á land með tilheyrandi hættu.
Þá er fólk beðið að virða lokanir og fara ekki lengra en að efra bílaplani, akandi eða gangandi.