Launahækkanir kennara sem kveðið er á um í nýjum kjarasamningi verða sveitarfélögum kostnaðarsamar og þeim þarf að mæta með hagræðingum og gjaldskrárhækkunum. Þetta segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogsbæjar. Hún hefur áhyggjur af viðbrögðum verkalýðshreyfingarinnar sem samdi á síðasta ári um mun hóflegri hækkanir.
Starfsbróðir hennar í Garðabæ, Almar Guðmundsson, tekur í sama streng.
Hann segir virðismatið mikilvægt og að mikið verk sé fram undan en skynjar þó áhyggjur beggja vegna borðsins á vinnumarkaði, bæði hjá Samtökum atvinnulífsins og verkalýðsfélögum. Segir hann mikilvægt að launahækkanir kennara, sem séu umfram þær prósentur sem aðrir sömdu um, séu vel rökstuddar með hliðsjón af mati á störfum þeirra.
„Ég vona að það verði friður gagnvart því að þessa vegferð verði að fara í gagnvart kennurum,“ segir Almar um það virðismat sem nýr kjarasamningur kennara felur í sér. Bæjarstjórarnir segjast þó ánægðir með að sveitarfélög og Kennarasamband Íslands hafi loks náð saman og að verkföllum sé aflýst, enda sé löng og ströng kjarabarátta að baki.
Almar og Ásdís eru gestir Dagmála í dag.
„Sveitarfélög þurfa að vera ábyrgur samningsaðili og við megum aldrei fara út fyrir það sem viðheldur stöðugleikanum. Ég held að við séum nærri því að vera þar,“ segir Almar spurður út í afstöðu sína til kjarasamnings sem samninganefndir undirrituðu í Karphúsinu seint á þriðjudagskvöld.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag