Einn var handtekinn á Íslandi í tengslum við umfangsmiklar aðgerðir Europol en hann er grunaður um að hafa keypt aðgang að og dreift barnaníðsefni sem búið var til með aðstoð gervigreindar.
Í tilkynningu segir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og embætti ríkislögreglustjóra hafi tekið þátt í alþjóðlegri lögregluaðgerð á dögunum, en hún sneri að barnaníðsefni sem var búið til með gervigreind.
Aðgerðin gekk undir nafninu Cumberland, en hana leiddu dönsk lögregluyfirvöld. Um var að ræða samræmdar aðgerðir með fulltingi Europol í sautján Evrópulöndum, auk Ástralíu og Nýja-Sjálands. 25 manns í 19 löndum voru handteknir í aðgerðum Europol og voru þær flestar framkvæmdar á miðvikudag. Búist er við fleiri handtökum á næstu vikum þar sem aðgerðin stendur enn yfir.
„Við fórum í sameiginlegar aðgerðir með öðrum lögregluliðum á miðvikudag og við handtókum einn og gerðum húsleit og tókum skýrslu af honum,“ segir Bylgja Hrönn Baldursdóttir við mbl.is en hún starfar hjá kynferðisbrot lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Bylgja segir að lagt hafi verið hald á muni í hans eigu og verið sé að rannsaka þá. Maðurinn, sem var handtekinn á höfuðborgarsvæðinu, er ekki í gæsluvarðhaldi.
Hún segir að aðgerðin hafi verið afar umfangsmikil og hafi undirbúningurinn að henni staðið yfir í langan tíma.
„Þessi mál komu upp í rannsókn hjá dönsku lögreglunni en aðili þar í landi hefur verið að búa til barnaníðsefni í gegnum gervigreind. Það er ótrúlegur ókostur að nýta gervigreindina í svona mál því það er hægt að nýta hana á svo marga góða vegu,“ segir hún.
Meintur höfuðpaur í málinu er danskur ríkisborgari, sem var handtekinn í lok síðasta árs. Hann er sagður hafa búið til barnaníðsefni og notað til þess gervigreind og síðan selt aðgang að efninu á netinu.