Braut gegn stjúpdóttur sinni: Misnotaði sér ítrekað yfirburðastöðu sína

„Brotaþoli var ungt barn á eigin heimili þar sem hún …
„Brotaþoli var ungt barn á eigin heimili þar sem hún átti að eiga öruggt athvarf með móður sinni og stjúpa sem misnotaði sér ítrekað yfirburðastöðu sína gagnvart henni freklega,“ segir í dómi héraðsdóms. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á fertugsaldri í 12 mánaða fangelsi, þar af níu mánuði skilorðsbundna, fyrir að brjóta kynferðislega á stjúpdóttur sinni þegar hún var átta ára gömul.

Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða stúlkunni tvær milljónir í miskabætur. Þá var honum gert að greiða fimm milljónir í sakarkostnað til ríkissjóðs.

Héraðssaksóknari gaf út ákæru á hendur manninum í janúar í fyrra. Þar var hann sakaður um kynferðisbrot og brot í nánu sambandi með því að hafa í fjölda skipta á nokkurra ára tímabili áreitt stjúpdóttur sína kynferðislega þar sem hún lá við hlið hans í rúmi.

Fram kemur í ákærunni að hann hafi strokið yfir bak hennar og bringu innan klæða og strokið og snert kynfæri hennar og rass innan klæða. Í hluta skiptanna fróaði hann sér við hlið hennar, en með þessu ógnaði maðurinn lífi, heilsu og velferð stúlkunnar sem þá var sjö til átta ára gömul.

Kvaðst þjást af kynferðislegri svefnröskun

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 25. febrúar, að maðurinn hafi neitað sök. Hann kvaðst m.a. þjást af svokallaðri kynferðislegri svefnröskun. 

Um málsatvik segir að móðir stúlkunnar hafi gefið skýrslu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í tilefni af því að dóttir hennar hafði greint henni um þremur vikum fyrr frá kynferðisbroti sem stúlkan kvaðst hafa orðið fyrir af hálfu mannsins, sem var sambýlismaður móður stúlkunnar.

Móðirin rakti að stúlkan hefði sagst hafa orðið fyrir óþægilegri snertingu. Nánar aðspurð hefði hún sagt frá því að sambýlismaður móður sinnar hefði verið að svæfa sig og þá verið að strjúka sér um bakið. Er hann hefði sofnað hefði hann farið inn í buxurnar hennar og lagt hendurnar í klofið á henni.

Byggt á framburði og matsgerð

Í niðurstöðukafla dómsins kemur fram að í málinu njóti ekki við sýnilegra sönnunargagna sem geti varpað beinu ljósi á atvikin sem ákæran lúti að. Lyktir málsins ráðist þannig af mati á sönnunargildi og trúverðugleika framburðar stúlkunnar og mannsins fyrir dómi, meðal annars með tilliti til þess hvernig þeir samrýmast öðrum framburðum sem geti haft áhrif þar á og sýnilegum sönnunargögnum, sérstaklega í umfjöllun og niðurstöðu í fyrirliggjandi matsgerð dómkvadds matsmanns.

Fram kemur að stúlkan hafi gefið skýrslu í Barnahúsi í kjölfar málsins og þar lýsti hún fjölda tilvika sem hafi átt sér stað þar sem maðurinn hafi nýtt sér þá aðstöðu að vera í sama rúmi og hún.

„Ekkert gefur tilefni til að ætla að hún sé að endursegja annarra frásögn eða lýsa einhverju sem hefur borið fyrir augu í sjónvarpi eða á veraldarvefnum.

Frásögn stúlkunnar ber merki aldurs hennar en virðist vera með öllu ýkjulaus, hún virðist á engan hátt reyna að gera hlut ákærða verri en efni standa til. Þvert á móti ber hún fram
skýringar á framgöngu ákærða og atvikum sem afsakar hana,“ segir í dómi héraðsdóms.

Ólíkur framburður hjá manninum

Eins og áður segir þá neitaði maðurinn sök.

„Þegar á hinn bóginn er lagt mat á trúverðugleika frásagnar ákærða verður ekki hjá því litið að framburður ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi er í verulegum atriðum ólíkur og í brýnni innbyrðis mótsögn, meðal annars um kringumstæður samskipta ákærða og brotaþola,“ segir í dómnum.

Héraðsdómur segir að ekki séu forsendur til að rengja frásagnir stúlkunnar um samskipti hennar við manninn. Þá liggja fyrir ítarleg gögn frá sálfræðingi sem starfar í Barnahúsi sem og frá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans um margháttaða alvarlega andlega erfiðleika sem stúlkan hefur stríð við á síðustu árum sem hafi verið tengdir við afleiðingar þeirrar háttsemi sem ákæran fjallar um.

Alvarlegar afleiðingar

„Svo illa var komið fyrir brotaþola að hún þurfti á bráðainnlögn að halda á legudeild geðdeildarinnar. Afleiðingarnar voru svo brýnar að skimað hefur verið fyrir því hvort öðrum áföllum í lífi brotaþola væri til að dreifa sem skýrt geti líðan brotaþola og því slegið föstu að svo sé ekki. Veita þessi læknisfræðilegu gögn framburði brotaþola nokkra stoð enda til þess að horfa að sökum ungs aldurs er þess vart að vænta að brotaþoli sé þess umkomin að gera sér upp líðan eins og þessa. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður því slegið föstu að ákærði hafi haft í frammi þá háttsemi sem ákært er fyrir,“ segir í dómi héraðsdóms.

Maðurinn hélt því fram að hann væri haldinn kynferðislegri svefnröskun sem fæli þá í sér ósjálfráða og óviljandi kynferðislega hegðun. Í því tilviki bæri að sýkna hann þar sem hann hefði ekki haft ásetning um að brjóta á stúlkunni.

Ekkert sem benti til kynferðislegrar svefnröskunar

Vegna þessarar málsvarnar þá var aflað mats hjá dómkvöddum matsmanni.

„Matsmaður komst afdráttarlaust að þeirri niðurstöðu að ákærði væri ekki haldinn kynferðislegri svefnröskun en svefnrannsókn hefði leitt í ljós að ákærði væri haldinn kæfisvefni og byggi við truflanir á djúpsvefni sem væru að mestu tengdar öndunartruflunum. Jafnframt svaraði matsmaður því að hann teldi afar ólíklegt að ákærði hefði verið sofandi og ómeðvitaður um eigin gjörðir eins og þeim er lýst í ákæru, eins og það er orðað í matsgerðinni.“

Héraðsdómur sakfelldi manninn fyrir að hafa áreitt stúlkuna kynferðislega með strokum um bak og bringu innan klæða og strokið og snert kynfæri hennar margoft og ógnað með því lífi, heilsu og velferð hennar.

Misnotaði sér ítrekað yfirburðastöðu sína

„Brotaþoli var ungt barn á eigin heimili þar sem hún átti að eiga öruggt athvarf með móður sinni og stjúpa sem misnotaði sér ítrekað yfirburðastöðu sína gagnvart henni freklega. Ljóst er af fyrirliggjandi vottorðum frá Barna- og unglingageðdeild Landspítala og Barnahúsi að brot ákærða hafa stefnt velferð og heilsu brotaþola í bráða hættu,“ segir í dómnum.

Tekið er fram að í ljósi verulegs dráttar á málinu verði níu mánuðir af refsingunni skilorðsbundnir en með tilliti til hinna alvarlegu sakargifta séu ekki forsendur til að skilorðsbinda refsingu mannsins að fullu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka