„Nú stend ég hrærður og gráhærður“

Bjarni Benediktsson fór um víðan völl í sinni síðustu setningarræðu.
Bjarni Benediktsson fór um víðan völl í sinni síðustu setningarræðu. mbl.is/Anton Brink

Bjarni Benediktsson, fráfarandi formaður Sjálfstæðisflokksins, kveðst sáttur með þá ákvörðun að stíga frá formennskunni. Hann segir rétt að ný forysta taki nú við taumum flokksins og móti stefnu hans. 

Fyrir skömmu lauk Bjarni sinni síðustu setningarræðu á landsfundi flokksins og fór formaðurinn um víðan völl í ræðu sinni. 

Hefja sóknina að nýju

Bjarni hóf ræðuna á að árétta að Sjálfstæðisflokkurinn hefði farið fram úr þeim væntingum sem gerðar voru til flokksins í síðustu kosningum. 

Flokkurinn sé þó nú í stjórnarandstöðu og því fylgi sóknarfæri. Sagði hann það gilda núna að sjálfstæðismenn stæðu saman og sóttu fram. 

„Hér á þessum landsfundi ætlum við að hefja sóknina að nýju,“ sagði formaðurinn.

Tók ákvörðun um jólin

Þá minntist hann á að stutt væri í sveitarstjórnakosningar og þörf væri á rækilegum breytingum í borginni. Fram að því færi tími Sjálfstæðisflokksins í uppbyggingu. 

Bjarni sagðist hafa tekið ákvörðun um að láta staðar numið í pólitíkinni eftir 22 ár, þar af 16 sem formaður Sjálfstæðisflokksins, um jólin eftir síðustu kosningar og að hann sé sáttur með ákvörðun sína. Rétt væri að ný forysta tæki við. 

Bjarni sagði að flokkurinn myndi nú hefja sókn að nýju.
Bjarni sagði að flokkurinn myndi nú hefja sókn að nýju. mbl.is/Anton Brink

Flokkurinn muni standa þétt á bak við nýjan formann

Sagði hann flokkinn vera að „springa úr krafti“ og lét í ljós ánægju sína með frambjóðendur til formannsstólsins, stöllurnar Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og Guðrúnu Hafsteinsdóttur. 

Þá kvaðst Bjarna vera sama um hvor þeirra yrði nýr formaður á sunnudaginn. Flokkurinn myndi allur standa þétt við bak nýs formanns að kosningu lokinni.  

Þétt var setið er fráfarindi formaðurinn flutti ræðu sína.
Þétt var setið er fráfarindi formaðurinn flutti ræðu sína. mbl.is/Anton Brink

Ekki hægt að bjóða upp á stöðuga flugeldasýningu

Sagði hann ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Vinstri grænna, sem hófst árið 2017, hafa þurft að takast á við margt. Fall flugfélagsins Wowair hefði haft mikil áhrif á efnahag, heimsfaraldurinn hefði lagst hart á Ísland og ferðaþjónustu þess, eldsumbrot á Reykjanesskaga hefðu hafist og ekki bætti úr skák innrásarstríð Rússlands í Úkraínu. 

„Við slíkar aðstæður getur ríkisstjórnin ekki boðið upp á stöðuga flugeldasýningu,“ sagði Bjarni og nefndi að eina sem hægt væri að gera væri m.a. að mæta í vinnuna, veita fólki stuðning og veita skjól. 

„Þetta starf þeirra ríkisstjórnar tókst vel.“

Bjarni gerði hispurlaust grín af þingmönnum Flokks fólksins.
Bjarni gerði hispurlaust grín af þingmönnum Flokks fólksins. mbl.is/Anton Brink

Bjarni bregður á glens

Formaðurinn sagðist ekki sáttur með úrslit síðustu kosninga en vék sér þó ekki undan ábyrgð. Hann sagði það mikil vonbrigði að hátt vaxtastig hefði dregist á langinn sökum þrálátrar verðbólgu. 

Hann óskaði þó nýrri ríkisstjórn alls hins besta. Sagði verkefnin geta verið krefjandi en svo virtist sem helsti vandi þessarar stjórnar væri stjórnin sjálf. 

Sagði formaðurinn að Inga Sæland hefði verið búin að vera ráðherra „í 13 klukkutíma og 18 mínútur þegar hún var byrjuð að ráðast á fjölmiðla“ og gerði hann stólpagrín að því þegar Inga Sæland hringdi í skólameistara Borgarholtsskóla vegna týnds skópars barnabarns síns. 

Líkti Bjarni Ingu við hinn fræga guðföður Don Corleone úr samnefndum myndum. Málið yrði svo gleymt og grafið er hún myndi byrja að syngja um Sigurjón digra. 

„Sigurjón digri reyndar krafðist þess að menn tæki af sér skóna,“ sagði Bjarni og uppskar hlátur úr salnum. 

Aðrir þingmenn Flokks fólksins fengu einnig að finna fyrir glensi Bjarna og var skotum beint að Eyjólfi Ármannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, næst. Hann hafi að sögn Bjarna verið „hart á móti borgarlínunni alveg þangað til hann fékk gult vesti og fékk að byrja framkvæmdir“.

„Þá var bara gaman,“ bætti Bjarni við.

Þá minntist Bjarni einnig ummæla Sigurjóns Þórðarsonar, þingmanns Flokks fólksins og formanns atvinnunnuveganefndar, sem sagði að styrkir til Morgunblaðsins ættu að vera endurskoðaðir. Komu ummælin eftir ítarlega umfjöllun miðilsins um hin ýmsu mál Flokks fólksins.  

„Það væri ástand á fjölmiðlunum ef ég hefði sagt þetta,“ sagði Bjarni kíminn og uppskar hlátur. 

mbl.is/Anton Brink

Verða að berjast gegn inngöngu í ESB

Hann gagnrýndi inngöngu í Evrópusambandið og sagði eitt mikilvægasta verkefni Sjálfstæðisflokksins á næstu árum vera að „berjast af öllu afli“ gegn þeirri tilraun ríkisstjórnarinnar. 

„Ég heiti á ykkur öll hvert og eitt að taka fullan þátt.“

Hrærður og gráhærður

„Kæru vinir, í dag ávarpa ég ykkur í síðasta sinn sem formaður Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Bjarni þegar líða fór að lokum setningarræðunnar. 

Sagðist hann hafa lagt sig allan fram í verkefnið og að hann hefði viljað skilja eftir sig mestan mögulegan árangur sem og tækifæri fyrir þjóðina. 

Sagði hann það hafa verið heiður að fá að gegna hlutverkinu sem hefði gefið honum tíma til að vaxa, eflast og þroskast. 

Minntist hann þess þegar hann tók við sem formaður flokksins árið 2009 og lét þau ummæli falla að hann væri hrærður eins og skyr. 

„Nú stend ég hrærður og gráhærður.“

Eiginkona Bjarna, Þóra Margrét Baldvinsdóttir, leiddi hann af pólitíska sviðinu.
Eiginkona Bjarna, Þóra Margrét Baldvinsdóttir, leiddi hann af pólitíska sviðinu. mbl.is/Anton Brink

Þakkaði pólitískum andstæðingum og var leiddur af „pólitíska sviðinu“

Þá þakkaði Bjarni flokkssystkinum sínum fyrir „stórkostleg ár“. Hlutu margir þakkir í ræðu formannsins sumir hverjir sérþakkir. 

„Ég ætla líka að þakka þeim sérstaklega sem gerðu mér þetta erfitt,“ sagði Bjarni og beindi orðum sínum að pólitískum andstæðingum. Sagði hann að í mótbyr gæti maður oft sótt mikinn kraft og meitlað sannfæringuna. 

„Þau sem voru mér erfiðust í þessu bjuggu eiginlega til pólitískt dýr úr mér sem entist þetta lengi.“

 Að lokum bauð formaðurinn eiginkonu sinni, Þóru Margréti Baldvinsdóttur, að koma upp á svið og leiða hann „af pólitíska sviðinu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka